

Nokkrar breytingar hafa orðið á fylgi flokka frá því seinni partinn í september. Miðflokkurinn kemur sterkur inn og fylgi Samfylkingarinnar og Viðreisnar eykst meðan Vinstri grænir dala nokkuð á ný og eru þeir aftur komnir niður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Á sama tíma hefur fylgi við Framsóknarflokkinn, Flokk fólksins og Bjarta framtíð minnkað að því er segir þjóðarpúlsi Gallup, sem byggir á mælingum dagana 29. september til 12. október.
Hvorugur ríkisstjórnarflokkanna sem slitu samstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn virðast þó vera á leið inn á þing, enda bæði Björt framtíð og Viðreisn með undir 5% fylgi.
Síðan um aldamótin hefur það verið lágmarkið til þess að fá jöfnunarsæti en fyrir það þurftu flokkar að hafa kjördæmakjörinn mann, til þess, sem þýddi í flestum tilvikum nokkuð hærra hlutfall.
Rösklega 9% segjast myndu kjósa Miðflokkinn færu kosningar til Alþingis fram nú, en framboðið kom fram undir lok síðasta könnunartímabils. Ríflega 13% myndu kjósa Samfylkinguna sem er aukning um fjögur prósentustig og nær 5% myndu kjósa Viðreisn. Fylgi Flokks fólksins minnkar um ríflega 4 prósentustig frá því í síðustu mælingu og Framsóknarflokksins um næstum 3 prósentustig.
Rúmlega 7% segjast myndu kjósa Framsóknarflokkinn nú og nær 6% Flokk fólksins. Fylgi Bjartrar framtíðar er einnig lægra nú en seinni hluta september, en 3% segjast myndu kjósa flokkinn. Ekki er marktæk breyting á fylgi annarra framboða.
Nær 24% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 23% Vinstri græn, tæplega 9% Pírata, 0,5% Dögun, 0,2% Alþýðufylkinguna og 0,1% Íslensku þjóðfylkinguna. Slétt 13% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og nær 7% svarenda segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið yrði til Alþingis í dag.
Ef skoðuð er fylgisbreytingin frá síðustu könnun sem var tekin dagana 15. til 28. september sést að fylgið skiptist þannig: