Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur samþykkt tillögu Bjarna Benediktssonar, um ríkisstjórnarsamstarf við Viðreisn og Bjarta framtíð. Þetta kemur fram á Facebook síðu Sjálfstæðisflokksins .

Áður fékk flokksráðið kynningu á stjórnarsáttmála flokkanna þriggja.

Óvissa með Bjarta framtíð

Nokkur óvissa ríkir þó um það hvort Björt framtíð geri slíkt hið sama. Í frétt sem birtist á Vísi.is , kemur fram að það sé nokkuð kurr meðal flokksmanna Bjartar framtíðar vegna samstarfs við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn.

Í kvöld fundar stjórn Bjartrar framtíðar og ráðgjafaráð Viðreisnar um stjórnarsáttmálann og kemur í kjölfarið í ljós hvort að flokkarnir tveir hugnist ríkisstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. Fyrir fundinn sagði Óttarr Proppé að hann væri óviss um hvernig málin kæmu til með að þróast á fundi stjórnar Bjartrar framtíðar í viðtali við Mbl.is. Hann segir að „þau eiga eftir að ræða málin.“