Þegar lokatölur voru birtar í Reykjavík undir klukkan 7 í morgun kom í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn fær næstum 31% atkvæða.
Fékk flokkurinn 8 borgarfulltrúa en Samfylkingin sem kom næst kom fékk næstum 26% atkvæða og 7 fulltrúa.

Þriðji stærsti flokkurinn var Viðreisn en hann fær ásamt Pírötum 2 frambjóðendur. Af minni flokkunum sem fengu einn mann hver, var Sósíalistaflokkurinn stærstur og munaði bara 1,3 prósentustigum á Pírötum. Miðflokkurinn fékk aðeins minna, og síðan munaði litlu á milli Vinstri grænna og Flokks fólksins, sem báðir fengu einn mann.

Viðreisn getur myndað meirihluta í báðar áttir án Sósíalista

Eini þriggja flokka meirihlutinn sem hægt væri að mynda væri 12 manna meirihluti Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Pírata.
Núverandi meirihluti Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna gæti haldið ef Viðreisn kemur inn í stað Bjartrar framtíðar sem ekki bauð sig fram fyrir þessar kosningar.

Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur, Flokkur fólksins og Viðreisn gætu einnig myndað meirihluta. Flokkarnir sem ekki voru í núverandi meirihluta gætu hins vegar ekki myndað meirihluta án Viðreisnar.

Á kjörskrá voru 90.135 en 60.422 greiddu atkvæði sem er 67% kosningaþátttaka. Það er meira en var fyrir fjórum árum þegar 90.489 voru á kjörskrá en þá var þátttakan 62,9%.

Hér má sjá skiptingu atkvæða í Reykjavík:

  • 30,8% og 8 borgarfulltrúar - Sjálfstæðisflokkur
  • 25,9% og 7 borgarfulltrúar - Samfylkingin
  • 8,2% og 2 borgarfulltrúar - Viðreisn
  • 7,7% og 2 borgarfulltrúar - Píratar
  • 6,4% og 1 borgarfulltrúi - Sósíalistaflokkur Íslands
  • 6,1% og 1 borgarfulltrúi - Miðflokkurinn
  • 4,6% og 1 borgarfulltrúi - Vinstri græn
  • 4,3% og 1 borgarfulltrúi - Flokkur fólksins
  • 3,2% og enginn fulltrúi - Framsóknarflokkurinn
  • 0,9% og enginn fulltrúi - Kvennahreyfingin
  • 0,6% og enginn fulltrúi - Höfuðborgarlistinn
  • 0,4% og enginn fulltrúi - Borgin okkar - Reykjavík
  • 0,3% og enginn fulltrúi - Karlalistinn
  • 0,3% og enginn fulltrúi - Alþýðufylkingin
  • 0,2% og enginn fulltrúi - Frelsisflokkurinn
  • 0,2% og enginn fulltrúi - Íslenska þjóðfylkingin