*

mánudagur, 25. mars 2019
Innlent 17. febrúar 2018 19:29

Sjálfvirknivæðing í samskiptum

Fyrirtækið iBot sem hannar spjallþarka fékk 6 milljón króna fjárfestingu eftir þátttöku í viðskiptahraðli í Þýskalandi.

Ísak Einar Rúnarsson
Ómar Yamak, Tómas Óli Garðarsson og Patrekur Maron Magnússon eru meðal stofnenda iBot iBot
Haraldur Guðjónsson

Fyrirtækið iBot hefur verið að hanna og þróa svokallaðan spjallþjarka sem er forrit sem svarar fyrirspurnum á Facebook sjálfkrafa og á ensku hefur verið útlagt „chat bot“.

„Fyrirtæki fá oft mikið magn fyrirspurna sem er tímafrekt en þó nokkuð einfalt að svara eins og um opnunartíma, verð og eiginleika vara. Við bjóðum upp á þá þjónustu að sjálfvirknivæða svör til almennings sem getur oft sparað töluvert í rekstri og létt álagi af starfsmönnum,“ segir Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri iBot, en auk þess getur spjallþjarkinn átt frumkvæði að samskiptum við viðskiptavini. „Þegar þú sem manneskja ert byrjuð að eiga samskipti við spjallþjarkann þá er hægt að senda á þig tilboð og annað markaðsefni. Það er annar notkunarmöguleiki á okkar lausn,“ segir Patrekur Maron.

Ævintýri í Þýskalandi endaði í sex milljóna króna fjárfestingu

Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði hjá Patreki Maron þegar hann las grein um spjallþjarka í byrjun síðasta árs en við það áttað hann sig á því að þarna væri eitthvað á ferðinni sem myndi skipta máli á næstu árum.  „Við byrjuðum að skrifa umsókn í Tækniþróunarsjóð sem var fimm vikna ferli,“ segir hann en umsóknarferlið hjálpaði þeim líka að móta hugmyndina.

Þeir félagar fjórir, sem standa að fyrirtækinu, biðu svo í þrjá mánuði eftir svari við umsókninni. Í millitíðinni voru þeir búnir að setja upp vefsíðu og byrjaðir að vinna í kerfinu en þá barst þeim athygli úr óvæntri átt. „Það var einhver aðili í Þýskalandi sem tók eftir vefsíðunni og leist vel á hugmyndina. Hann er með viðskiptahraðal í Hamborg í Þýskalandi og hvatti okkur til þess að sækja um þar,“ segir Patrekur Maron en upphaflega höfðu þeir lítinn hug á því. „Þegar við vorum búnir að bíða svo lengi eftir svari frá Tækniþróunarsjóði og nánast búnir að gefa upp alla von um styrk þaðan ákváðum við að láta slag standa og senda inn umsókn í hraðalinn,“ segir hann en í kjölfarið kom í ljós að styrkurinn var þeirra sem þeir eru afar þakklátir fyrir en sömuleiðis fengu þeir sæti í hraðlinum.

Þeir héldu því út til Hamborgar þar sem þeir dvöldu næstu fimm mánuðina og unnu að hugmyndinni í hraðlinum sem meðal annars er haldið úti af Der Spiegel og Die Zeit sem eru einir stærstu fréttamiðlar í Þýskalandi.  „Við fengum svo fjárfestingu í tengslum við hraðalinn þar sem þeir keyptu 10% hlut í fyrirtækinu á 50.000 evrur,“ segir Patrekur Maron en það samsvarar tæplega 6,3 milljónum króna miðað við núverandi gengi.