Samkvæmt athugun Íslenska sjávarklasans hafa fjárfestar lagt til hlutafé í sprotafyrirtæki sem hafa aðsetur í Húsi sjávarklasans á árunum 2012 til dagsins í dag um 5 milljarða króna. Þá hafa fyrirtækin hlotið styrki sem nema um 600 milljónum króna á þessu tímabili.

Frá þessu er skýrt í nýlegri Greiningu sjávarklasans . Þar Ísland sagt vera Sílikondalur sjávarútvegs í heiminum. Sprotafyrirtæki sem hafa orðið til á vettvangi Sjávarklasans séu mörg hver búin að slíta barnsskónum, og þar eru nefnd til fyrirtæki á borð við Collagen ehf., Ankra ehf., Ocean Excellence ehf. og Codland ehf.

„Ein mikilvægasta áskorun Íslenska sjávarklasans hefur verið að leiða fjárfesta inn í hóp sprotafyrirtækja í klasanum,“ segir í greiningunni. „Margt gerði það að verkum að á upphafsárum klasans reyndist það erfitt. Efnahagslegar aðstæður voru erfiðar í landinu og næg verkefni fyrir fjárfesta og sjóði að koma að fjárfestingum og endurskipulagningu ýmissa stórfyrirtækja í íslensku atvinnulífi. Þá voru rannsóknarsjóðir með lítið svigrúm.“

Hins vegar hafði verið lagður grunnur að ýmsum sprotafyrirtækjum með eflingu rannsóknarsjóðanna hér á landi árið 2013-2014.

Sprotafyrirtækin í klasanum eru sögð vera að vinna að fjármögnun ýmissa verkefna, þar á meðal verksmiðja til úrvinnslu hliðarafurða sem nema um 7 milljörðum króna .

Stofnanafjárfestar áhugalitlir
Íslensku viðskiptabankarnir eru sagðir hafa komið að lánsfjármögnun ýmissa verkefna þessara fyrirtækja. En langflestir þeirra sem hafa fjárfest í verkefnum tengdum Sjávarklasanum eru einkafjárfestar, eða um 80 prósent.

„Þrátt fyrir góðan vilja margra stofnanafjárfesta hafa sprotafyrirtækin ekki notið liðsstyrks þeirra að neinu ráði,“ segir í greiningunni. Þar segir einnig að ekkert eitt einkenni þá fjárfesta sem komið hafi að sprotafyrirtækjum klasans.

„Hluti fjárfesta hefur mikla reynslu úr íslensku atvinnulífi, bæði sjávarútvegi og öðrum greinum. Þessir fjárfestar hafa í mörgum tilfellum reynst sprotafyrirtækjunum afar þýðingarmiklir, bæði vegna þeirra fjármuna sem þeir hafa komið með í fyrirtækin en ekki síður þeirra tengsla sem þessir aðilar hafa bæði hér og erlendis.“

Þá segir að hluti fjárfestanna hafi haft aðsetur í Húsi sjávarklasans. Þar hafi myndast góð tengsl á milli fjárfestanna og sprotafyrirtækjanna í klasanum.

Síðan 2016 hafa erlendir fjárfestar lagt til um 20% fjárfestinga í sprotafyrirtækjum.

„Þessir fjárfestar hafa umtalsverð tengsl erlendis og hafa áhuga á því að koma vörum fyrirtækjanna á markað erlendis. Ekki er komin mikil reynsla á samskipti við þessa fjárfesta en áhugavert verður að gera samanburð á þeim og innlendum fjárfestum í sprotafyrirtækjum á næstu árum.“