Íslenski sjávarklasinn stofnaði í vikunni fyrirtækið Ocean Innovation ehf. Tilgangurinn er að halda utan um verkefni í Portland í Maine, Bandaríkjunum. Unnið er að því að opna þar 2.500 fermetra hús við höfnina sem verður að fyrirmynd húss íslenska sjávarklasans.

„Hingað komu bandarískir fjárfestar og voru mjög áhugasamir um að koma á svipuðu fyrirtæki í Portland,“ segir Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri sjávarklasans. Þór segir klasann munu leiða erlendu fjárfestana í gegnum ferlið og vera hluthafa í fyrirtækinu. Hann sé einnig í sambandi við fjóra aðra aðila, flesta í Bandaríkjunum, sem hafa áhuga á því að reisa svipuð hús í samstarfi við fyrirtækið.