Sjávarútvegsráðstefnan hefur verið haldin árlega síðan 2010. Hún hefst í Hörpu á fimmtudag og stendur í tvo daga.

„Það sem er nýtt hjá okkur í ár er að við verðum með sérstaka málstofu fyrir nemendur,“ segir Helga Franklínsdóttir, formaður stjórnar Sjávarútvegsráðstefnunnar. „Við verðum líka með hraðstefnumót, sem við köllum svo, þar sem við fáum stjórnendur fyrirtækjanna til að koma og ræða beint við nemendur.“

Þarna er verið að höfa sérstaklega til nemenda í sjávarútvegsfræðum og skyldum greinum.

„Við erum að beina þarna athyglinni að því hver eru tækifærin í því námi og í því starfi. Margir fara frekar út í viðskiptalífið eða í lögfræðina, en unga fólkið þarf líka að mennta sig í því sem tengist sjávarútvegi. Því sem við Íslandingar byggjum á. Einhver þarf að taka við.“

Ráðstefnan verður haldin í Hörpu í næstu viku, fimmtudaginn 15. og föstudaginn 16. nóvember. Venju samkvæmt verða stærstu málstofurnar haldnar í upphafi og lok ráðstefnunnar, en þar á milli er fjöldinn allur af málstofum um fjöbreytileg efni tengd sjávarútvegi með ýmsum hætti. Alls eru málstofurnar 16 og erindin 80 talsins.

„Við reynum yfirleitt að hafa upphafs- og endamálstofurnar sérstaklega góðar, og reynum þá að fá áhrifaríkt fólk til að tala. Þær eru náttúrlega hvað mest sóttar,“ segir Helga.

Farsæll rekstur
Opnunarmálstofan að þessu sinni, að morgni fimmtudags, snýst um farsælan rekstur í sjávarútvegi. Þar tekur meðal annarra til máls Pétur Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, sem dregur upp mynd af því hvernig eignarhald sjávarútvegsfyrirtækja hefur breyst og reynt að meta hvað ræður því.

Í lok þeirrar málstofu verða síðan afhent framúrstefnuverðlaun ráðstefunnar, Svifaldan, en á síðasta ári komu þau verðlaun í hlut Vilhjálms Hallgrímssonar hjá Fisheries Technologies ehf. Hann hafði þróað alhliða upplýsingakerfi fyrir fiskveiðistjórnun, byggt á langri reynslu Íslendinga og fjárfestingu.

„Í lokamálstofunni erum erum við síðan að einblína svolítið á markaðsmálin. Þar erum við að koma inn á markaðseflingu og vörumerki Íslands. Þar er til dæmis Guðný Káradóttir á Íslandsstofu hun er að tala um grunninn að góðri sölustarfsemi og þarna erum við líka að fá inn erlenda fyrirlesara, eins og til dæmis Elly Truesdell. Hún var áður að vinna hjá Wholefoods og erindið hennar heitir Does Iceland Matter?“

Helga segist reikna með að skoðanir verði þarna skiptar, en tilgangurinn er sá að koma af stað umræðum þar sem ólíkar skoðanir fá að heyrast.

Ímynd Íslands
„Við Íslendingar höfum til dæmis ekkert tekið skrefið um að fara í sameiginlega markaðssetningu, en þarna erum við að opna svolítið vettvanginn. Væri betra fyrir okkur að nýta okkur það sameiginlega hve Ísland er vinsælt eins og er í staðinn fyrir að vera öll á sér báti?“

Til þess að efla skoðanaskiptin enn frekar er gert ráð fyrir því að svigrúm verði fyrir umræður helst í lok hverar málstofu og í sumum málstofunum er í lokin efnt til pallborðsumræðna, þar sem menn koma í pallborð og bregðast við spurningum.

„Við erum að fá fullt af fólki sem er klárlega ekki sammála í öllu, og það kryddar þetta enn frekar að að fólk fái tækifæri til að rökræða hlutina.“

Annars segir hún reynt að höfða til sem flestra mismunandi hópa þegar efni eru valin til umfjöllunar.

„Við erum áfram að fjalla um framtíðartæknina, því þar er alltaf eitthvað að gerast. Í fyrra vorum við með fjórðu iðnbyltinguna og núna er það tækni framtíðarinnar.“

Þá segir hún sérstaka áherslu lagða á umhverfismál að þessu sinni.

„Þau mál eru farin að skipta miklu meira máli í sjávarútvegi núna, öll sú þróun sem nú er að eiga sér stað og áhrifin á hafið. Þetta snertir allt sjávarútveginn á einn eða annan hátt.“

Helstu bolfiskmarkaðir

Enn fremur verður málstofa tileinkuð stöðu og þróun á mikilvægustu bolfiskmörkuðum okkar.

„Þar erum við til dæmis að skoða framboð á bolfiski, framleiðslu og útflutning og samkeppnistegundir. Síðan er farið yfir helstu markaði, eins og Bretland og Bandaríkin til dæmis svo við getum aðeins borið okkur saman hvar stöndum við í þessum efnum. Það er svo mikilvægt að geta borið okkur saman við aðra í þessum efnum. Oft er sagt að Ísland sé bara best í heimi, en erum við það?“ spyr Helga, og bendir á aðra málstofu sem er einmitt með þessa yfirskrift: „Ísland best í heimi?“

„Það er sem sagt verið að spyrja hvort við stöndum í raun fremst á alþjóðavísu þegar kemur að sjávarútvegi, og höfum við áhrif? Ég held að þetta sé málefni sem getur skapað skemmtilegar umræður þegar upp er staðið.“

Framtíð smábátaútgerðar

Sérstök málstofa er einnig tileinkuð saltfiskframleiðendum og önnur er helguð framtíð smábátaútgerðar á Íslandi. Er þá aðeins fátt eitt talið af öllu því sem í boði er á ráðstefnunni.

Helga segir mikilvægi þessarar árlegu ráðstefnu fyrir Ísland og íslenskan sjávarútveg ótvírætt.

Þessa dagana er verið að leggja lokahönd á undirbúninginn og þar nýtur Helga aðstoðar félaga sinna í stjórn ráðstefnunnar, en í henni eiga að þessu sinni sæti ásamt Helgu þau Axel Helgason, Bjarni Eiríksson, Daði Már Kristófersson, Gísli Kristjánsson, Jón Þrándur Stefánsson, Margrét Geirsdóttir og Sturlaugur Sturlaugsson Stjórnarsetan er sjálfboðaliðastarf og hafa tæplega fjörutíu manns setið í stjórn félagsins síðustu níu ár.

Viðtal þetta birtist í Fiskifréttum 8. nóvember síðastliðinn.