Ólafur Ólafsson, sem dæmdur var til fangelsisvistar vegna aðkomu sinnar að Al-Thani málinu svokallaða, segir að sjeik Al-Thani og sjeik Sultan hafi slitið samskiptum við sig vegna þess að þeir hafi tapað háum fjárhæðum á kaupum sínum á 5,01% hlut í Kaupþingi í september 2008.

Ólafur afplánar nú á Kvíabryggju en var í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið fyrir skemmstu. Meðal þess sem barst í tal voru samskipti hans og sjeikanna.

Hefurðu verið í sambandi við Sjeik Al-Thani og Sjeik Sultan eftir að málið kom upp?

„Nei. Þeir voru auðvitað mjög ósáttir við að tapa öllum þessum peningum. Þeir voru ósáttir við að þessi fjárfesting hefði snúist svona algjörlega í andhverfu sína," segir Ólafur.

„Þeir komu inn í Kaupþing af heilum hug, en á erfiðum tímum. Þeir héldu sjálfir að botninum væri náð og Kaupþing myndi standast þetta. Þrátt fyrir að Lehman hafi fallið þá hættu þeir ekki við. Þegar þetta dynur í andlitið á þeim og þeir þurfa að leggja fram háar fjárupphæðir, tapa miklum peningum og orðstír, verða þeir náttúrlega mjög ósáttir.“