*

föstudagur, 26. apríl 2019
Innlent 9. mars 2017 08:00

Sjö milljarða tekjur af Airbnb

Tekjur vegna Airbnb í Reykjavík jukust um 169% milli áranna 2015 og 2016 samkvæmt nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka.

Trausti Hafliðason
Haraldur Guðjónsson

Greining Íslandsbanka spáir því að á þessu ári komi 2,3 milljónir erlendra ferðamanna til Íslands og að gjaldeyristekjur af ferðamönnum muni nema 560 milljörðum króna á árinu, eða 45% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Rekja má um helming þeirra starfa sem skapast hafa í hagkerfinu frá árinu 2010 beint eða óbeint til ferðaþjónustunnar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um ferðaþjónustuna sem kynnt er í dag.

Gangi spáin eftir mun ferðamönnum fjölga um 530 þúsund frá því í fyrra, sem er met. Þess má geta að allt árið 2011 komu í heildina 540 þúsund ferðamenn til landsins og það ár námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu 196 milljörðum króna.

46 milljarðar í hótel

Greining Íslandsbanka reiknar með að á næstu fjórum árum verði 46 milljörðum króna varið í hótelfjárfestingu á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjárfesting mun skila ríflega 2.200 nýjum hótelherbergjum. Meginþunginn í þessari uppbyggingu verður hins vegar ekki fyrr en á næsta ári en þá reiknar bankinn með að tæplega 900 hótelherbergi verði byggð.

Miðað við spá um fjölgun ferðamanna á þessu ári telur Greining Íslandsbanka að það þurfi að byggja 1.400 hótelherbergi strax á þessu ári. Það mun ekki gerast því miðað við áætlanir verða einungis 465 ný hótelherbergi byggð á árinu.

„Áætlaður fjöldi hótelherbergja sem ráðgerð eru á árinu 2017 nema því um þriðjungi af áætlaðri þörf. Áhrifin munu, að öðru óbreyttu, vera þau að nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu eykst og/eða að hlutfallslega fleiri ferðamenn nýti sér annars konar gistingu. Því er ljóst að áfram mun vera þrýstingur á aukið umfang deilihagkerfisins og annars konar gistiþjónustu á svæðinu.“

Í skýrslu Íslandsbanka er töluvert fjallað um deilihagkerfið. Þar kemur fram að á síðasta ári hafi meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík verið 2.000, sem var ríflega tvöföldun frá árinu 2015. Í greiningunni kemur fram að í fyrra hafi heildartekjur vegna Airbnb gistirýma í Reykjavík numið tæplega 6,8 milljörðum króna. Tekjurnar jukust mikið á milli ára því árið 2015 námu þær 2,5 milljörðum. Aukningin nemur 169%.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta gerst áskrifendur hér.

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim