Greining Íslandsbanka spáir því að á þessu ári komi 2,3 milljónir erlendra ferðamanna til Íslands og að gjaldeyristekjur af ferðamönnum muni nema 560 milljörðum króna á árinu, eða 45% af gjaldeyristekjum þjóðarbúsins.

Rekja má um helming þeirra starfa sem skapast hafa í hagkerfinu frá árinu 2010 beint eða óbeint til ferðaþjónustunnar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka um ferðaþjónustuna sem kynnt er í dag.

Gangi spáin eftir mun ferðamönnum fjölga um 530 þúsund frá því í fyrra, sem er met. Þess má geta að allt árið 2011 komu í heildina 540 þúsund ferðamenn til landsins og það ár námu gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu 196 milljörðum króna.

46 milljarðar í hótel

Greining Íslandsbanka reiknar með að á næstu fjórum árum verði 46 milljörðum króna varið í hótelfjárfestingu á höfuðborgarsvæðinu. Þessi fjárfesting mun skila ríflega 2.200 nýjum hótelherbergjum. Meginþunginn í þessari uppbyggingu verður hins vegar ekki fyrr en á næsta ári en þá reiknar bankinn með að tæplega 900 hótelherbergi verði byggð.

Miðað við spá um fjölgun ferðamanna á þessu ári telur Greining Íslandsbanka að það þurfi að byggja 1.400 hótelherbergi strax á þessu ári. Það mun ekki gerast því miðað við áætlanir verða einungis 465 ný hótelherbergi byggð á árinu.

„Áætlaður fjöldi hótelherbergja sem ráðgerð eru á árinu 2017 nema því um þriðjungi af áætlaðri þörf. Áhrifin munu, að öðru óbreyttu, vera þau að nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu eykst og/eða að hlutfallslega fleiri ferðamenn nýti sér annars konar gistingu. Því er ljóst að áfram mun vera þrýstingur á aukið umfang deilihagkerfisins og annars konar gistiþjónustu á svæðinu.“

Í skýrslu Íslandsbanka er töluvert fjallað um deilihagkerfið. Þar kemur fram að á síðasta ári hafi meðalfjöldi virkra gistirýma á Airbnb í Reykjavík verið 2.000, sem var ríflega tvöföldun frá árinu 2015. Í greiningunni kemur fram að í fyrra hafi heildartekjur vegna Airbnb gistirýma í Reykjavík numið tæplega 6,8 milljörðum króna. Tekjurnar jukust mikið á milli ára því árið 2015 námu þær 2,5 milljörðum. Aukningin nemur 169%.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .