Framtakssjóðurinn Innviðir fjárfestingar slhf., að mestu í eigu lífeyrissjóða, á í viðræðum við sveitarfélagið Árborg um fjárfestingar í fráveitu sveitarfélagsins.

Miklar fjárfestingar fram undan

Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Árborgar, segir ljóst að töluverðar fjárfestingar séu fram undan í fráveitumálum sveitarfélagsins. Til að mynda sé stefnt að því að ljúka umhverfismati við nýja hreinsistöð við Ölfus í september 2019, sem kosta eigi 1,2-1,5 milljarða króna. Þá þurfi að fjárfesta milljarð á næstu árum, fyrst og fremst við Eyrarbakka og Stokkseyri.

Til skoðunar er að fráveitur Árborgar verði færðar í sérstakt félag sem Innviðir eigi 49% í en Árborg 51%. Lögum samkvæmt þurfa sveitarfélög að eiga meirihluta í slíkum félögum. „Það myndi þýða að innviðasjóður fjárfesti í helmingi af núverandi virðismati fráveitunnar sem myndi lækka skuldabyrði sveitarfélagsins,“ segir Gísli.

Nákvæmt mat á virði fráveitu Árborgar liggur ekki fyrir en unnið hefur verið með töluna 2,5 milljarða króna. Það hefði í för með sér að Innviðir þyrftu að greiða Árborg 1,25 milljarða króna við stofnun félagsins. Hins vegar eru líkur á því að fráveiturnar séu enn verðmætari að sögn Gísla. „Það er ýmislegt sem bendir til þess að sú upphæð geti orðið hærri,“ segir hann.

Skuldir Árborgar nema nú um tíu milljörðum króna og eru að mestu verðtryggðar, en eignir nema um 15 milljörðum króna „Þessi aðgerð myndi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á verðbólguáhættu Árborgar,“ segir Gísli. Málið var kynnt fyrir bæjarfulltrúum á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku. Sé vilji til að taka næsta skref þurfi bæjarstjórn að samþykkja viljayfirlýsingu um að Árborg eigi að fara í viðræður við Innviði. Gangi það eftir verði framkvæmt nákvæmara verðmat á fráveitum sveitarfélagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .