Fjárfestinga- og verðbréfasjóðir Júpíters rekstrarfélags, dótturfélags Kviku, náðu góðum árangri árið 2017. Sjóðir félagsins náðu mestri ávöxtun í fjórum sjóðsflokkum árið 2017 í samanburði innlendra sjóða á Keldunni.

Meðal 15 blandaðra sjóða náði fjárfestingasjóðurinn Eignaleið V - Hlutabréfasafn í rekstri Júpíters mestri ávöxtun, eða 8,2%, á tólf mánaða tímabili miðað við 29. desember. Sjóðurinn er 2,1 milljarðar króna að stærð. Jafnframt náði sjóðurinn Eignaleið II - Varfærið safn í rekstri Júpíters þriðju hæstu ávöxtuninni, eða 6,1%, á eftir Einkasafni A í rekstri Íslandssjóða.

Íslenskir hlutabréfasjóðir, sem voru ellefu talsins á árinu, skiluðu flestir neikvæðri ávöxtun árið 2017. Hlutabréfasjóður Júpíters, Júpíter - Innlend hlutabréf, náði hins vegar 7,5% ávöxtun, sem er 20,5% umfram ávöxtun Landsbréfa - Úrvalsbréf, sem skilaði neikvæðustu ávöxtuninni. Hrein eign hlutabréfasjóðs Júpíters er 5,3 milljarðar króna. Næstmestri ávöxtun náði Hlutabréfavísitölusjóður Íslenskra verðbréfa, sem er í hlutlausri stýringu, en ávöxtun sjóðsins var aðeins 0,2%.

Meðal skuldabréfasjóða með stuttan meðallíftíma náði sjóður Júpíters, Ríkisverðbréfasjóður stuttur, 5,6% ávöxtun. Hinir fjórir sjóðirnir í þeim flokki náðu ávöxtun á bilinu 4,9-5,3%. Þá náði Lausafjársjóður Júpíters 5% ávöxtun, sem var mesta ávöxtunin meðal skammtímasjóða, sem voru sjö talsins á árinu.

Hæstri ávöxtun meðal innlendra sjóða á árinu skilaði skuldabréfasjóður Íslandssjóða, IS Ríkisskuldabréf löng, eða rúmlega 10%. Meðal þeirra tíu meðallangra skuldabréfasjóða sem náðu mestri ávöxtun voru jafnframt sex í rekstri Íslandssjóða, sem er dótturfélag Íslandsbanka. Ríkisskuldabréfasjóður Júpíters var þar í þriðja sæti, með 7,2% ávöxtun, aðeins 0,5% undir ávöxtun IS Sértryggður VTR sjóðs Íslandssjóða.