Lífeyrissjóðirnir sem tapað hafa milljörðum á fjárfestingu sinni í kísilverksmiðju Unites Silicon íhuga skaðabótakröfu á hendur þeim sem ullu því að þeir settu fjármagn í verkefnið að því er Morgunblaðið greinir frá.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um hefur byggingasaga og rekstur kísilverksmiðjunnar verið mikil hraksaga og ganga dómsmálin á víxl milli Arion banka og fyrrverandi forsvarsmanna verksmiðjunnar.

Nú hafa lífeyrissjóðirnir ráðið til sín lögmann til að gæta eigin hagsmuna í málinu, en í þessari viku fá sjóðirnir skýrslu sem beðið hefur verið eftir þar sem farið er yfir fjármálaleg og verkfræðileg álitamál í uppbyggingu verksmiðjunnar.

Eitt af því sem er til skoðunar hjá lögmanninum er möguleg skaðabótaábyrgð Arion banka, en hann var allt í senn hluthafi, lánveitandi og ráðgjafi við fjármögnun verkefnisins.

Auk þess er hann rekstraraðili tveggj af þeim þremur lífeyrissjóðum sem lögðu fé í verkefnið, en það eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa og Eftirlaunasjóður FÍA.

Þó skýrslan sé ekki komin út eru áætlanir um byggingarkostnað kísilverksmiðjunnar sagðar hafa í engu staðist, og fullyrðingar í fjárfestakynningu um tæknimálefni verksmiðjunnar sagðar hlægilegar.