Fasteignasjóðurinn SRE II, sjóður á vegum Stefnis, dótturfélags Arion banka, hefur keypt 85% hlut í Hótel Borg. Núverandi eigendur eiga áfram 15% hlut í hótelinu. Stefnt er að stækkun eignarinnar en mögulegt er að bæta allt að 43 herbergjum við hótelið. Keahótel ehf. er leigutaki og rekstraraðili Hótel Borgar. Hluthafar SRE II eru margir af stærstu lífeyrissjóðum og tryggingafélögum landsins. Ekkert er gefið upp um kaupverð í tilkynningu um viðskiptin.

Haft er eftir Þórhalli Hinrikssyni, framkvæmdastjóra fasteignasjóðs Stefnis, í tilkynningu að ástæðan fyrir kaupunum sé m.a. sú að gert sé ráð fyrir áframhaldandi aukningu á komum erlendra ferðamanna til landsins og fjölgun gistinátta. „Við sjáum því töluverð tækifæri í mögulegri stækkun hótelsins úr 56 herbergjum í um 100 og að tryggja þannig enn frekar stöðu Hótel Borgar til lengri tíma,“ segir hann.

Hótel Borg er eitt af kennileitum Reykjavíkur í miðborginni. Húsameistarinn Guðjón Samúelsson teiknaði húsið en Jóhannes Jósepsson byggði það fyrir Alþingishátíðina árið 1930 og var upp frá því nefndur Jóhannes á Borg. Hótelið var endurnýjað gagngert á árunum 2006 til 2008 og er mjög eftirsóttur dvalarstaður meðal fólks í viðskiptaerindum jafnt sem einkaerindum. Við stækkun hótelsins verður lögð áhersla á að fylgja þeirri meginlínu sem Guðjón Samúelsson lagði á sínum tíma og að viðhalda merkri sögu hótelsins.