Gera má ráð fyrir því að sjómannadeilan hafi kostað þjóðarbúið um 12 til 15 milljarða króna ef miðað er við útflutningsverðmæti sjávarafurða upp á 500 milljónir á dag. Verkfallið hefur staðið yfir frá 14. desember. Um málið er fjallað í Morgunblaðinu .

Þar er haft eftir Svavari Þór Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Sæmarks, sem segir að það sé „ófremdarástand“ á mörkuðum og að viðskiptavinir fyrirtækisins séu uggandi yfir öryggi íslenskra markaða.

Viðræðurnar milli sjómanna og sjávarútvegsfyrirtækja virðast færast í rétta átt, samninganefndir funduðu um helgina og jákvæðari tónn var í samningamönnum fyrir helgi. Haft er eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS, að það hafi verið mjög góður gangur í viðræðunum. Hún útilokar ekki að samningar nást í vikunni.