Sjómannasamband Íslands er hlynnt eftirliti með löndun fram hjá vigt, brottkasti og almennri umgengni um auðlindina. Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri sambandsins, segir að myndavélaeftirlit tíðkist og hafi tíðkast á fjölmörgum sviðum samfélagsins til margra ára.

Samtök atvinnulífsins hafa veitt umsögn um áform sjávarútvegsráðuneytisins um umfangsmikið myndavélaeftirlit sem ætlað er að koma upp til að „fylgjast með meintum og ætluðum brotum á lögum sem gilda um veiðar, vinnslu, flutning og meðferð afla.“ Samtökin segja að nái þessi áform fram að ganga muni þau verða fyrirmynd annarra eftirlitsstjórnvalda og innan fárra ára gætu „Íslendingar búið við eftirlitsþjóðfélag af áður óþekktri gerð sem hingað til hefur einungis verið til í skáldsögum og kvikmyndum,“ segir m.a. í umsögn SA.

Sjáum ekki betri lausn

„Það þarf að taka á málum eins og löndum fram hjá vigt og að rétt sé vigtað. Reglulega hefur farið af stað umræða um brottkast og við skiljum það þannig að Fiskistofa hafi ekki tök á því að fylgjast með þessu eins og staðan er nú. Einhvern veginn verður samt að bregðast við. Við vitum að það eru eftirlitsmyndavélar víða, jafnt um borð í skipum og í höfnum, reyndar í öðrum tilgangi, sömuleiðis í bönkum, í miðbæ Reykjavíkur og víðar. Ég reikna með að farið verði í einu og öllu eftir persónuverndarlögum verði myndavélaeftirlit af þessu tagi tekið upp,“ segir Hólmgeir.

„Brottkastið, sem ég reyndar tel að sé ekki mikið, löndun fram hjá vigt og röng vigtun ásamt ísprósentunni, allt kallar þetta á eftirlit. Auðvitað kostar þetta sitt en hér er jú um auðlind þjóðarinnar að tefla og við viljum að umgengnin um hana sé góð. Bendi menn á snjallar lausnir aðrar en myndavélaeftirlit þá er sjálfsagt að skoða það. En við sjáum ekki betri lausn í stöðunni.“

Hólmgeir segir að misskilnings virðist gæta í umsögn SA þar sem segir að ætlunin sé að Fiskistofa reki flota af fjarstýrðum loftförum til að sinna eftirliti. „Ég skil það af vinnuskjali ráðuneytisins að drónar verði ekki notaðir við fiskveiðaeftirlit heldur við eftirlit með netalögnum meðfram ströndinni og ólöglegum laxveiðum, svo eitthvað sé nefnt. Mér fyndist ágætt ef Samtök atvinnulífsins bentu á einhverjar aðrar færar leiðir til að koma skikk á þessi mál. En ég verð að játa það að umsögn SA kom mér ekkert á óvart.“