Eins og sakir standa hefur verkfall sjómanna staðið yfir í tvo mánuði. Í Morgunblaðinu segir að nú virðist sem ögurstund komi til með að renna upp í dag.

Í dag eru fyrirhugaðir fundir hjá samninganefndum sjómanna og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er vilji fyrir því meðal sjómanna að finna aðra lausn sem byggist á samningi aðila en ekki lagasetningu.

Haft er eftir Valmundi Valmundssyni, formanni Sjómannasambandsins í Morgunblaðinu, að hann geti staðfest að menn væru farnir að tala um að finna aðra út úr þessu sem yrði með öðrum formerkjum en hingað til. Þó gat hann ekki staðfest hvaða leið það var í samtalinu við Morgunblaðið. Aðilar í samtökum innan Sjómannasambandsins hittast á fundi í dag og svo munu aðrar samninganefndir sjómanna hittast í dag.

Eins og að „pissa í skóinn“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegsráðherra, sagði um helgina að lagasetning á verkfall sjómanna yrði eins og að „pissa í skóinn“. Hún hvatti deiluaðila til að hverfa frá þeim hugsunarhætti að ríkið komi að deilunni með sértækum aðgerðum.

Þorgerður sagði ekki hægt að réttlæta sértækar skattaaðgerðir inn í verkfallið - þvert á móti sé einstakt tækifæri til að gera skattkerfið einfaldara. Hún sagði öfugsnúið að tala um að útgerðir eigi að greiða sanngjarnt verð fyrir auðlindina en krefjast svo þess að ríkið styrki sjávarútveginn með skattabreytingu. Ef útgerðin, SFS og stjórnmálamenn krefjist þess að ríkið komi að því að styrkja sjávarútveginn í formi skattaafsláttar þá sé það ný nálgun af hálfu útgerðarinnar.

Mikið tekjutap

Í nýrri skýrslu lagt er mat á þjóðhagslegan kostnað af verkfalli sjómanna kemur meðal annars fram að gögn bendi til að framleiðsla og útflutningur ferskra bolfisksafurða hafi dregist saman um 40 til 55 prósentustig frá því sem ætla mætti að hún hafi verið á tímabilinu 14. desember 2016 til 10. febrúar 2017. Fyrirliggjandi upplýsingar um aflabrögð, flutningamagn á sjó og flugi og útflutning benda til þess að framleiðsluminnkun á ferskum bolfiskafurðum á tímabilinu hafi minnkað útflutningstekjur um 3.500 til 5.000 milljóna króna á tímabilinu. „Þetta er að nokkru tap sem ekki verður bætt með nýtingu aflaheimilda síðar,“ segir í skýrslunni.