Hagnaður Sjóvá á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1,1 milljarði króna sem er mikil aukning frá sama tímabili í fyrra þegar hann nam 423 milljónum króna. Hagnaður af vátryggingarstarfsemi félagsins fyrir skatta nam 136 milljónum króna en hagnaður af fjárfestingarstarfsemi fyrirtækisins fyrir skatta nam 1.024 milljónum króna.

Á sama tímabili árið 2016 var hins vegar 51 milljón króna tap af vátryggingastarfseminni, en hagnaðurinn af fjárfestingarsarfseminni nam 446 milljónum króna. Iðgjöldin jukust einnig milli ára eða úr 3.583 milljónum í 3.849 milljónir króna, en tjónakostnaður jókst einnig eða úr 2.692 milljónum í 2.951 milljón króna.

Rekstrarkostnaður af vátryggingarekstri félagsins dróst hins vegar aðeins saman, og fór hann úr 928 milljónum niður í 924 milljónir. Ávöxtun eignasafns félagsins var 3,9% en ávöxtun af skráðum hlutabréfum var umfram væntingar, eða 10% á tímabilinu.

Óvenjumörg stór tjón í mars

Hermann Björnsson forstjóri fyrirtækisins segir afkomu félagsins á fyrsta ársfjórðungi teljast góða og vísar í fréttatilkynningu þess efnis frá 10. apríl síðastliðnum.

„Eins og oft áður er það góð afkoma af fjárfestingum, einkum skráðum hlutabréfum, sem drífur áfram hagnað tímabilsins,“ segir Hermann.

„Merkjanlegur bati er á grunnrekstrinum frá sama tíma og í fyrra þar sem samsett hlutfall lækkar úr 106,9% í 103,5%. Sú afkoma getur samt sem áður ekki talist ásættanleg til lengri tíma og stefnt er að því að koma hlutfallinu í 97-99% í lok árs.

Af þeim þremur mánuðum sem liðnir eru af árinu var afkoman fyrir janúar og febrúar mun betri en fyrir mars. Í þeim mánuði féllu til óvenju mörg stærri tjón.

Mikilvægt er að fylgjast með tjónaþróun í þeim efnahagsuppgangi sem nú er og verðleggja áhættur rétt. Það á við um margar vátryggingagreinar en þó sérstaklega bifreiðatryggingar þar sem aukning umferðar er gríðarleg.“