Sjóvá hagnaðist um 2.690 milljónir árið 2016. Afkoma félagsins er betri en árið áður þegar Sjóvá hagnaðist um 657 milljónir. Samsett hlutfall félagsins var 100,9% í lok árs 2016. Hagnaður Sjóvá var 1,75 króna á hlut.

Hagnaður af vátryggingarstarfsemi félagsins fyrir skatta nam 646 milljónum króna árið 2016 og nam hagnaður af fjárfestingastarfsemi eftir skatta 2.459 milljónum króna. Afkoma fyrir skatta og afskrift óefnislegra eigna lækkaði úr 3.935 milljónum króna árið 2015 í 3.105 milljónir króna árið 2016.

Stjórn félagsins leggur til arðgreiðslu sem nemur 1,75 krónu á hlut eða um 2,6 milljarða. Ávöxtun verðbréfasafns Sjóvá á árinu var 10,1% og var arðsemi eigin fjár 15,9%.

Iðgjöld tímabilsins námu 15.399 milljónum króna árið 2016 samanborið við 14.076 milljónir árið áður og er það aukning um 9,4%. Fjárfestingartekjur Sjóvá drógust saman um 25,7% milli ára en árið 2015 námu þær 4.623 milljónum samanborið við 3.434 milljónum í fyrra. Heildartekjur Sjóvá árið 2016 námu 18.072 milljónum króna.

Haft er eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvá, að afkoma félagsins fyrir árið 2016 hafi verið óvenju góð. Hún helgast fyrst og fremst af ávöxtun fjárfestingareigna sem var umfram væntingar. „Afkoman af vátryggingastarfsemi fyrir árið var ekki langt frá birtum horfum í upphafi síðasta árs. Aðgerðir á liðnu ári til lækkunar á samsettu hlutfalli báru árangur og við gerum ráð fyrir að sú þróun haldi áfram á þessu ári. Tjónshlutfallið er hærra en við teljum ásættanlegt en þar hafa aukin umsvif í þjóðfélaginu áhrif. Fjölgun erlendra ferðamanna hefur þar líka sitt að segja. Aukningin á milli ára í umferð um hringveginn í fyrra var sú mesta frá upphafi mælinga og vísbendingar eru um að sú þróun muni halda áfram.

Innviðirnir verða að fylgja þessari stórauknu umferð því með henni aukast líkur á alvarlegu slysi en slys á erlendum ferðamönnum eiga sér flest stað í dreifbýli. Alvarlegum umferðarslysum sem ferðamenn lenda í hefur fjölgað meira en sem nemur fjölgun ferðamanna undanfarin tvö ár og það er þróun sem við eigum ekki að sætta okkur við. Það er forgangsmál að tryggja öryggi allra sem ferðast um landið með forvörnum og frekari fjárfestingum í vegakerfinu og öðrum innviðum,“ segir Hermann.