Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði eilítið í viðskiptum dagsins, eða um 0,06% í 1,7 milljarða viðskiptum. Stendur hún nú í 1.711,98 stigum  en aðalvísitala Skuldabréfa lækkaði um jafnmikið niður í 1.340,23 stig í 4,7 milljarða viðskiptum.

Gengi bréfa Sjóvá hækkaði mest í kauphöllinni í dag eða um 1,74% í 131 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 17,50 krónur. Næst mest hækkun var á gengi bréfa Eikar fasteignafélags eða um 1,68% í 473 milljón króna viðskiptum. Mest viðskipti voru með bréf Eikar, en gengi þeirra er nú 10,89 krónur.

Til samanburðar var engin verðbreyting á bréfum Reita fasteignafélags sem enn stendur í 88,50 krónum eftir 105 milljóna viðskipti í dag, en hins vegar var þriðja fasteignafélagið í kauphöllinni, Reginn hf., það sem hækkaði þriðja mest eða um 1,38% í 211 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa félagsins er nú 25,75 krónur.

Einungis þrjú félög lækkuðu í virði í kauphöllinni í dag, þar af Marel minnst í óverulegum viðskiptum. Mest var lækkunin á gengi Icelandair, eða 0,96% í 365 milljón króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 15,50 krónur. Nýherji lækkaði svo um 0,82% í 15 milljón króna viðskiptum og er söluvirði bréfa félagsins nú 30,15 krónur.