„Þetta er búið að vera frábært ár hjá okkur og við vildum deila því með nærsamfélaginu með 4,5 milljón kr styrk,“ segir Una Lovísa Ingólfsdóttir, vörustjóri og stjórnarmaður í Skaganum 3X. Styrkirnir fara til Íþróttabandalags Akraness og Héraðssambands Vestfirðinga.

„Fyrir hönd starfsmanna sinna vilja fyrirtækin Skaginn hf., Þorgeir & Ellert hf. og 3X Technology ehf. stuðla að bættum gæðum og faglegri vinnu við barna- og unglingastarf íþróttahreyfinga í heimabyggð,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækjunum. „Við trúum á gildi íþróttaiðkunar til forvarna og viljum gjarnan að stuðningurinn verði nýttur í þágu þess.“

Stuðningurinn er veittur í nafni starfsmanna fyrirtækjanna og er ætlað að bæta barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna árið 2018. Þar sem barna- og unglingastarf er langtímaverkefni gefa fyrirtækin nú jafnframt fyrirheit um sambærilegan stuðning, að ári, fyrir árið 2019.

Stofnaðir hafa verið sérstakir bankareikningar hjá Íslandsbanka, annarsvegar á Akranesi og hinsvegar á Ísafirði, sem eingöngu verða ætlaðir til stuðnings við barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna.

Skaginn og Þorgeir & Ellert styðja Íþróttabandalag Akraness samtals að upphæð 3.000.000,- og hafa fyrirtækin greitt þá upphæð inn á bankareikning 0552-14-350180.

3X Technology styður Héraðssamband Vestfirðinga að upphæð 1.500.000,- og hefur fyrirtækið greitt þá upphæð inn á bankareikning 0556-14-400730.

Stuðningurinn er ekki sérstaklega ætlaður ákveðnum aðildafélögum innan íþróttahreyfinganna og munu forsvarsmenn hreyfinganna sjá um með hvaða hætti stuðningurinn, í þágu barna- og unglingastarfs í heimabyggð, verði nýttur. Sérstaklega er tekið fram að stuðningurinn er einungis ætlaður sem viðbót við núverandi barna- og unglingastarf og ekki ætlaður til frekari fjárfestinga innan íþróttahreyfinganna.

Fyrirtækin hvetja ennfremur bæði einstaklinga og lögaðila til að leggja verkefninu lið og þannig styðja við börn og ungmenni í sinni heimabyggð. Frjáls fjárframlög má leggja inn á eftirfarandi reikninga sem eingöngu eru ætlaðir til stuðnings við barna- og unglingastarf íþróttahreyfinganna:

Íþróttabandalag Akraness, kt. 670169-2199 – reikningsnr. 0552-14-350180

Héraðssamband Vestfirðinga, kt. 490500-3160 – reikningsnr. 0556-14-400730