Hlutverk nýsköpunar í atvinnuuppbyggingu þjóðarinnar hefur vaxið stórkostlega seinasta áratug og gegnir nú stærra hlutverki en nokkru sinni fyrr. Fáir hafa betri yfirsýn yfir þennan geira en Einar Gunnar Guðmundsson, forsvarsmaður nýsköpunar hjá Arion banka og guðfaðir Startup Reykjavik.

Einar Gunnar hefur haft umsjón með Startup Reykjavík og Startup Energy Reykjavík fyrir hönd bankans frá því að umræddum viðskiptahröðlum var komið á fót og leitt frumkvöðlastarf bankans síðan 2011. Frá upphafi er búið að fjárfesta í tæplega 90 fyrirtækjum.

Endurmátu líf sitt í kjölfar Hrunsins

Einar Gunnar bendir á að fram til 2010 hafi stuðningur við sprota hérlendis verið afar takmarkaður. Þegar landsmenn náðu síðan áttum eftir Hrunið leituðu margir innávið, endurskoðuðu líf sitt og hópur hæfileikafólks ákvað að gera það sem hjartað bauð því í stað þess að festa sig í hefðbundnari störfum sem höfðuðu minna til þess. Samhliða því vöknuðu ýmsir aðilar til vitundar um að þörf væri á að styðja við frumkvöðla.

„Á þessum tíma var Nýsköpunarmiðstöð atvinnulífsins starfandi, Klak og Innovit, en öllu meiri stuðningur var nú ekki í boði fyrir þá sem vildu hleypa nýjum og frumlegum hugmyndum af stokkunum,“ segir Einar Gunnar.

„Síðan gerist það í kringum 2012 að skriður kemst á hlutina. Það ár er Startup Reykjavík haldið í fyrsta skipti, Startup Iceland-ráðstefnan er haldin í fyrsta skipti og eitt og ýmislegt annað er að gerjast. Árið 2015 eru síðan settir á laggirnar framtakssjóðirnir Eyrir sprotar, SA framtak og Frumtak II, sem höfðu þá yfir ellefu milljarða í fjárfestingargetu.

Um líkt leyti verður Sjávarklasinn til, frumkvöðlar eru að deila húsnæði með tilheyrandi skapandi skörun, það eru haldnir margvíslegir fundir og ráðstefnur, Klak og Innovit sameinast og verða síðan Icelandic startups, og svo framvegis. Allir þessir aðilar og fleiri til eru að pota í hið opinbera og spyrja hvernig það ætlar að koma til móts við þennan suðupott.

Ríkið bregst að mörgu leyti sæmilega við, setur aukið fjármagn í Tækniþróunarsjóð, leggur drög að endurgreiðslukerfi, reglur um kauprétti í nýsköpunarfyrirtækjum eru endurskoðaðar og margt fleira, þannig að segja má að á seinustu fjórum árum hafi orðið sprenging til góðs í þessum geira.

Með auknum fjárfestingum kemur aukið bensín á eldinn og upp spretta spennandi og öflug nýsköpunarfyrirtæki sem mörg hver eru farin að þenjast út og skapa gríðarleg verðmæti. Himintunglin röðuðust bara öll saman á tiltölulega stuttum tíma þannig að jörðin varð frjósöm og gjöful.“

Vírus sem ekki fer úr blóðinu

Er þá svo komið að nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi teljist eðlilegur og viðtekinn hluti af íslensku viðskiptalífi í stað þess að vera hálfgert olnbogabarn eins og var á árum áður?

„Það ætla ég rétt að vona. Það að standa í frumkvöðlastarfsemi má líkja við að fá vírus sem fólk losnar aldrei við þegar hann er kominn í blóðrásina. En hafa verður hugfast að ef fólk ætlar að stofna fyrirtæki í þeim eina tilgangi að verða auðugt, þá eru það kolvitlausar forsendur frá upphafi. Upp á síðkastið er búið að stofna talsvert fleiri fyrirtæki í þessum geira og stofnendurnir hafa fengið aukna hvatningu, t.d. í gegnum svokallaða viðskiptahraðla og samfélagshraðla, sem skilar sér margfalt til baka.

Þá fær þessi hópur þau skilaboð að þau geti tekið áhættur með sínar hugmyndir, vonandi gengur allt upp en ef eitthvað klikkar þá er það ekki heimsendir heldur lærir fólk á því og stofnar þá jafnvel ný fyrirtæki með þann lærdóm í farteskinu og gerir betur næst. Sumir heltast kannski úr lestinni en þegar vírusinn er kominn til staðar sýnir reynslan að fólk fer ógjarnan í örugga daglaunavinnu þó að það lendi í einhverjum skakkaföllum í sinni nýsköpun. Á þessum grunni byggjum við öflugt frumkvöðlastarf sem hefur margfeldisáhrif til langframa.“

Greinin í heild birtist í tímariti Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Hægt er að kaupa tölublaðið hér eða gerast áskrifandi að Frjálsri verslun hér.