Jón L. Árnason tók við starfi framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins Lífsverks í byrjun júlí. Aðspurður segir hann nýja starfið leggjast mjög vel í sig. Undanfarin áratug hefur Jón starfað á eignastýringarsviði hjá Arion banka og forverum hans, fyrst sem viðskiptastjóri í einkabankaþjónustu og forstöðumaður frá árinu 2009. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri lífeyrissjóða í umsjón Arion banka síðustu ár. Spurður af hverju hann ákvað að breyta til eftir áratug hjá bankanum segir Jón að honum hafi fundist vera kominn tími til að breyta um umhverfi. „Það hafði svo sem farið ágætlega vel um mig hjá Arion banka, ég hef verið þar í mjög fjölbreyttum verkefnum á eignastýringasviði. En það er alltaf gaman að takast á við nýjar áskoranir,“ segir Jón.

Þrefaldur Íslandsmeistari í skák Jón er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands og með próf í verðbréfaviðskiptum. Hann er kvæntur Þórunni Guðmundsdóttur sem starfar hjá Kauphöll Íslands og eiga þau þrjár dætur. Jón tók þátt í sínu fyrsta skákmóti 11 ára gamall og er stórmeistari í skák. Hann var atvinnuskákmaður í átta ár, tefldi á skákmótum, skrifaði um skák og kenndi við Skákskóla Íslands. Hann er þrefaldur Íslandsmeistari í íþróttinni. Hann segist lítið hafa sinnt skákinni undanfarið, en hefur gaman af því að grípa í skák stöku sinnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .