Í frétt á vef RÚV greinir frá því að skálað hafi verið í freyðivíni þegar formenn flokkanna sem eiga í stjórnarmyndunarviðræðum luku störfum sínum í dag. Það þykir vera til marks um að viðræðurnar hafi borið tilætlaðan árangur. Í frétt á vef mbl.is segir svo frá því að þingflokkar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og VG hafi verið boðaðir til þingflokksfundar klukkan eitt á morgun.

Í fréttinni segir Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, að enn sé tekist á um ráðherraskipan og fjárlagagerð í stjórnarmyndunarviðræðunum. Hins vegar séu þau á lokametrunum í að ganga frá stjórnarsáttmála. Flokksstofnanir flokkanna þriggja, sem þurfa að leggja blessun sína yfir stjórnarsamstarfið, verða svo væntanlega kallaðar saman í miðri viku.