*

mánudagur, 27. maí 2019
Innlent 28. nóvember 2017 15:06

„Skammast mín ekki fyrir yfirlýsingagleði“

Oddviti VG segir flokkinn ekki verða taglhnýtinga Íhaldsins með forsætisráðuneytið þegar rifjuð eru upp ummæli eftir kosningar.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Líf Magneudóttir oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn Reykjavíkur segist vonast til, og ekki geta útilokað að sú ríkisstjórn sem nú sé í burðarliðnum geti komið góðum verkum til leiðar. Segir hún flokk sinn vilja bera ábyrgð og hafa áhrif á stjórn landsins næstu fjögur árin, og fyrst ríkisstjórnin sé undir forystu Katrínar Jakobsdóttur sé ljóst að VG verði aldrei taglhnýtingar íhaldsins.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá hefur Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata ryfjað ítrekað upp orð Lífar um að kominn væri tími til að gefa „íhaldinu" frið daginn eftir síðustu kosningar, en nú stefnir í að stjórn Vinstri grænna með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki verði kynnt á fimmtudag.

Hvarflaði ekki að sér að vinstriflokkarnir fengju ekki afgerandi umboð

Í færslu á facebook síðu sinni segir Líf að í tilefni þess að flokksráð VG hittist á morgun og greiðir atkvæði um stjórnarsáttmálann hafi margir rifjað upp að hún og fleiri hafi lýst yfir afdráttarlausri andstöðu við Sjálfstæðisflokkinn.„Atburðir síðustu daga og vikna hafa sýnt mér að ég var greinilega full yfirlýsingaglöð,“ segir Líf sem þó segist ekki skammast sín fyrir yfirlýsingar sínar. 

„Ég hefði viljað að hér hefði verið mynduð vinstristjórn, og í ljósi alls sem á undan var gengið hvarflaði ekki að mér annað en að vinstriflokkarnir myndu fá afgerandi umboð kjósenda til að mynda slíka stjórn. Það fékkst ekki og niðurstöður kosninganna urðu aðrar en ég og aðrir félagar VG hefðum viljað.

Uppbygging á félagslegum forsendum

Þá er að spila úr því sem maður hefur og endurmeta. Einar dyr lokast og aðrar opnast. VG fékk tækifæri til að stjórna ferðinni og setja málefni okkar á dagskrá. Við viljum bera ábyrgð og hafa áhrif á stjórn landsins næstu fjögur árin. 

Það eru ótal mál sem þola enga bið, og það er mikilvægt að sú innviðauppbygging sem ráðist verður í á næstu árum sé á félagslegum forsendum. Ég treysti Katrínu og Svandísi og öðrum í forystu flokksins til að halda stefnumálum flokksins fram af festu. 

Með Katrínu í forystu er tryggt að Vinstri græn verða aldrei taglhnýtingur íhaldsins. Höfum það á hreinu. Ég tók þá ákvörðun að bíða átekta. Sjá hvað kæmi út úr viðræðum þessara þriggja flokka. Gefa þessu séns. Meta samstarfssamninginn ef af honum yrði. Nú er komið að því. 

Ekki óskastjórn

Ég skammast mín ekki fyrir yfirlýsingagleði mína í fortíð eða skoðanir. Ég gat ekki vitað hvernig niðurstöður kosninganna yrðu. Þetta er ekki óskastjórn mín. En aðstæður hafa breyst og ég þarf að taka afstöðu til pólítísks raunveruleika. Á flokksráðsfundi á miðvikudaginn get ég tekið afstöðu til málefnasamningsins, og ég mun vanda mig. 

Og kannski sannast hið fornkveðna: Enginn gerir svo öllum líki og ekki guð í himnaríki. 

Þó sú ríkisstjórn sem er í burðarliðnum sé ekki sú ríkisstjórn sem ég hefði kosið þá er hún niðurstaða kosninganna og það er ekki útilokað að hún geti komið góðum verkum til leiðar. Ég vona það að minnsta kosti.“

25 ára afmælistilboð VB!

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir út árið 2019. Innifalið í tilboðinu er:

  • - Viðskiptablaðið sent heim
  • - Vefaðgangur að vb.is
  • - Frjáls verslun sent heim
  • - Fiskifréttir sent heim