Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir löggjöfina, GDPR, hafa verið mjög brýna, skammsýni sé að horfa í kostnað við löggjöfina en Viðskiptaráð áætlar að GDPR kosti íslensk fyrirtæki 1,3 milljarða króna á ári.

„Það að líta á kostnaðinn núna myndi ég segja að væri gríðarleg skammsýni á alvarleika þessa máls. Þetta er vissulega stofnkostnaður sem þarf að huga í upphafi. En að sama skapi er þetta ákveðin bjargvættur fyrir heilbrigðan rekstur fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga annarra sem vinna með persónuupplýsingar,“ segir Helga.

„Þetta er vegferð í átt að betra samfélagi og betri rekstri og í þá átt að hætta að gera einstaklinga að leiksoppum þeirra sem valdið hafa yfir persónuupplýsingum eins og verið hefur,“ segir Helga. Helga segir mikil viðskiptatækifæri fólgin í nýju persónuverndarlöggjöfinni. Fyrirtæki geti meðal annars skapað sér samkeppnisforskot með því að sýna fram á að notkun þeirra á persónuupplýsingum sé til fyrirmyndar. Helga bendir á að gagnavinnsla fyrirtækja þurfi að standast kröfur neytenda og bendir á Cambridge Analytica sem dæmi. Fyrirtækið var lýst gjaldþrota fyrr á þessu ári en það nýtti gögn um 87 milljóna notenda Facebook, í flestum tilfellum án samþykkis eða vitundar einstaklinganna fyrir notkun gagnanna.

„Cambridge Analytica skandallinn er ekki einsdæmi. Það eru gríðarlega mörg fyrirtæki að gera svipað og það er bara spurning hvenær upp um það kemst,“ segir Helga.

Tæknifyrirtæki móti huga fólks

Þá segir Helga að ástæða fyrir lagasetningunni sé tæknibyltingin sem leitt hafi af sér aukna söfnun, miðlun og vinnslu persónuupplýsinga. „Athygli persónuverndarstofnana er meðal annars á handfylli tæknifyrirtækja, Amazon, Facebook, Google, Uber, sem stjórna milljónum huga. Sýnt hefur verið fram á hvernig hægt er að nýta persónuupplýsingar til að hafa áhrif á fólk og gera það að leiksoppum þeirra sem valdið hafa yfir þessum upplýsingum. Það sem Facebook veit ekki nú þegar um okkur kaupir það frá Amazon til að fá enn gleggri upplýsingar um okkur. Allt sem við gerum er skráð og skilmerkilega kortlagt. Það er alveg ljóst að það er verið að vinna með þessar upplýsingar á gífurlega háu stigi.“ Heimurinn sé að fylgjast með því sem sé að gerast í Evrópu og líkur séu á að GDPR verði grunnstaðall sem persónuverndarlöggjöf um heim allan verði byggð á.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .