Orf líftækni stendur á tímamótum um þessar mundir og ef fram fer sem horfir verður vöxtur fyrirtækisins í ár um 30%, þökk sé meginvörumerki fyrirtækisins, BIOEFFECT. Frosti Ólafsson, forstjóri fyrirtækisins, segir spennandi tíma fram undan þrátt fyrir að sterkt gengi krónunnar og örar launahækkanir hafi sett ákveðið strik í reikninginn. Hann telur stærsta vandamál íslensks efnahagslífs liggja á vinnumarkaðnum þar sem skammtímasjónarmið og eiginhagsmunir hafi ráðið för.

Krónan setur stórt strik í reikninginn

Fyrirtækið skilaði fyrst hagnaði árið 2015, hvernig hefur afkoman þróast síðan?

„Það má segja að það hafi orðið vatnaskil í rekstrinum árið 2010 þegar BIOEFFECT var sett á markað. Fram að því hafði átt sér stað mjög mikil fjárfesting í rannsóknum og þróun en starfsemin var nær eingöngu fjármögnuð í gegnum hlutafé og styrki. Frá og með árinu 2010 hafa tekjurnar vaxið hratt en fyrsta árið með jákvæðum rekstrarhagnaði var 2013 og við skiluðum svo hagnaði af starfseminni í heild sinni árið 2014. Árið 2016 var jafnframt hagnaður þrátt fyrir verulegar launahækkanir og gengisstyrkingu krónunnar.

Hvort tveggja setur stórt strik í reikninginn fyrir fyrirtæki eins og okkur, enda erum við í raun með hreinræktaðan útflutning á þekkingu, bæði vísindaþekkingu og markaðsþekkingu. Launin eru okkar þyngsti útgjaldaliður og 75% af okkar tekjum eru í erlendri mynt. Árferði síðustu ára hefur því reynst snúið en við höfum náð að standa það af okkur. Áætlanir gera ráð fyrir því að rekstrarhagnaðurinn í ár verði með svipuðu móti og á síðasta ári. Við erum að fjárfesta mjög mikið í vexti bæði í markaðssókn og áframhaldandi fjárfestingu í rannsóknum og þróun og innreið á Bandaríkjamarkað. Það má því segja að vöxtur hafi haft forgang á hagnað.“

Hvernig hefur gengi krónunnar bitnað á samkeppnisstöðu ykkar á erlendum mörkuðum?

„Auðvitað sníður þessi þróun okkur mun þrengri stakk og það eru takmörk fyrir því hversu mikið er hægt að bregðast við með beinum verðhækkunum. Mikil styrking krónunnar samhliða innlendu launaskriði þýðir einfaldlega að geta okkar til að fjárfesta í vexti minnkar og við finnum að sjálfsögðu fyrir þessu. Það er kannski ekki síður þessi stöðugi ófyrirsjáanleiki sem skapar fyrirtækjum eins og okkar vandamál. Að gera rekstrar­áætlanir í svona umhverfi er augljóslega hægara sagt en gert. Fyrir fyrirtæki sem er að knýja vöxt á þessum hraða þá þarf að horfa í hverja krónu og ráðstafa fjármagninu með sem skilvirkustum hætti. Krónan er klárlega ekki til gagns í þeim efnum og það verður seint sagt að á Íslandi séu kjöraðstæður til uppbyggingar alþjóðlegra þekkingarfyrirtækja.“

Skammtímasjónarmið og eiginhagsmunir

Fjölmörg íslensk fyrirtæki hafa, líkt og Orf líftækni, fundið fyrir erfiðum áhrifum krónunnar og ört hækkandi launakostnaði. Frosti telur hins vegar enga töfralausn að finna þegar kemur að þessum málaflokki. „Flest fyrirtæki bregðast við þessum kringumstæðum með því að hægja á vexti eða flytja starfsemi sína að hluta eða í heild. Krónan er örmynt og mun alltaf skapa ákveðinn óstöðugleika en rót vandans hefur legið í lélegri hagstjórn.

Stærsta vandamálið þar hefur legið á vinnumarkaðnum en þar virðast skammtímasjónarmið og eiginhagsmunir alfarið ráða för. Þess fyrir utan er þetta líka spurning hvers konar atvinnulíf við viljum byggja upp. Við erum búin að sjá miklar breytingar á hagkerfinu að undanförnu og það má í raun segja að aðrar útflutningsgreinar séu fórnarlömb velgengni ferðaþjónustunnar. Þetta er liður í því að búa í litlu og síbreytilegu hagkerfi en að mínu mati væri æskilegt að auka hlutdeild útflutnings sem ekki byggir á náttúruauðlindum. Ferðaþjónustan hefur skapað hagkerfinu í mikil verðmæti á undanförnum árum en þetta mikla innstreymi fjármagns gerir öðrum útflutningsgreinum erfiðara um vik,“ segir Frosti.

Viðtalið má lesa í heild sinni í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.