Markaðsráðstefnan Krossmiðlun verður haldin í fimmta sinn þann 14. september næstkomandi á Grand Hótel Reykjavík, en hún er að þessu sinni helguð skapandi notkun gagna í markaðssetningu. Meðal fyrirlesara verða íslenskir og erlendir sérfræðingar en aðalfyrirlesararar verða Baker Lambert og Sami Salmenkivi, yfirmenn hjá TBWA auglýsingastofunni á heimsvísu.

,,Alls staðar er verið að safna gögnum. Þekkingin flýtur upp um alla veggi. Upplýsingar sem fyrirtæki og auglýsingastofur geta nálgast um viðskiptavini og í raun hvaðeina sem hugurinn girnist, eru alltumlykjandi. Á Krossmiðlun verður farið yfir hvort við erum að nýta þessi gögn til gagns og hvernig við getum notað gagnainnsæi á skapandi og árangursríkan hátt," segir Vigdís Jóhannsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Pipar\TBWA, sem heldur ráðstefnuna.

,,Eitt af heitustu umræðuefnunum þetta árið hefur verið GDPR og neikvæða umræðan um gögn og gagnaöflun. Við hjá Pipar\TBWA lítum hins vegar á GDPR sem tækifæri til að þjónusta viðskiptavini og notendur enn betur, því það eru komnar leikreglur. Þetta er ástæða þess að við leggjum áherslu á gögn eða ,,creative data" þetta árið á Krossmiðlun og viljum skoða hvernig við getum náð meiri árangri í markaðsmálum á skemmtilegan hátt."