Rafgjaldmiðillinn Bitcoin hefur vakið gífurlega mikla athygli síðustu ár. Gengi gjaldmiðilsins hefur hækkað og dalað mjög órólega og hratt. Hann hefur verið bendlaður við ólögleg fíkniefnaviðskipti, og píramídasvindl úti í heimi.

Þrátt fyrir allt þetta hyggst hagfræðingurinn Bhagwan Chowdry tilnefna huldumanninn Satoshi Nakamoto til Nóbelsverðlauna í hagfræði fyrir hugmynd sína að Bitcoin.

Chowdry hefur verið gefinn réttur til einnar tilnefningar til Nóbelsverðlaunanna í hagfræði, og mun hann tilnefna Nakamoto, sem enginn veit hver er eða býr, til verðlaunanna.

Þetta gerir hann vegna þess að honum finnst hugmyndin að baki Bitcoin vera svo byltingarkennda að hún muni neyða fjármálaheiminn til að endurhugsa fjármagn og viðskipti algjörlega.

„Starfssvið á borð við bankakerfið, lögkerfið og fjármálakerfið munu þurfa að gangast undir mikla endurskipulagningu,“ segir Chowdry í grein sinni. „Ég get ekki nefnt aðra eins nýsköpun í hagfræði- eða fjármálageiranum sem hefur átt sér stað síðustu áratugina. Þetta mun auka velferð gífurlega.“