Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) hefur ráðið Skarphéðinn Smára Þórhallsson landfræðing í starf verkefnisstjóra svæðisskipulags Austurlands. Skarphéðinn hefur störf 1. október næstkomandi. Þetta segir í fréttatilkynningu frá SSA.

„Skarphéðinn Smári útskrifaðist sem landfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2002 en hann lagði áherslu á skipulagsmál í náminu. Samfara námi vann hann við að útbúa gagnagrunna vegna Landgræðsluskóga hjá Skógræktarfélagi Íslands. Árið 2005 tók Skarphéðinn Smári við starfi héraðsfulltrúa hjá Fljótsdalshéraði þar sem hann fór með málefni dreifbýlisins og hálendis. Hann tók svo við umhverfismálum sveitarfélagins árið 2008 þar sem hann starfaði fram til ársins 2010 þegar hann hóf störf hjá Mannviti, fyrst sem landfræðingur og síðar meir sem skrifstofustjóri. Í lok árs 2015 hóf Skarphéðinn Smári eigin rekstur undir merkjum Logg – landfræði & ráðgjöf. Hann hefur víðtæka reynslu að vinnu við skipulagsmál,“ segir í tilkynningunni.

Einnig kemur fram að: „Vinna við svæðisskipulag Austurlands er eitt af áhersluverkefnum landshlutans í tengslum við samning um sóknaráætlun. Markmiðið með verkefninu er að vinna skipulagsáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi sem landfræðilegrar, hagrænnar og félagslegrar heild. Í svæðisskipulagi er sett fram stefna viðkomandi sveitarfélaga um sameiginlega hagsmuni, s.s. byggðaþróun, samgöngur, náttúru, menningu, auðlindir og þjónustu, svo eitthvað sé nefnt.“