Þorkell Sigurlaugsson
Þorkell Sigurlaugsson
© Axel Jón Fjeldsted (VB MYND/AXEL JÓN)
Þorkell Sigurlaugsson, sem tók við stjórnarformennsku í Framtakssjóði lífeyrissjóðanna á fimmtudaginn í síðustu viku, hefur komið víða við í íslensku atvinnulífi allt frá árinu 1977 er hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hefur auk þess verið afkastamikill í útgáfu á ýmsu ritefni, allt frá árinu 1989.

Þorkell þykir skarpgreindur og „vinsamlegur í samskiptum“ eins og einn samstarfsmanna hans í gegnum tíðina orðaði það. Hann er vel tengdur í atvinnulífinu og með mikla reynslu sem stjórnandi. Í samtölum við Viðskiptablaðið lýstu samstarfsmenn honum sem manni með sterka stefnumótunareiginleika. Þá einblíndi hann frekar á sértæk vandamál, og lausn þeirra, fremur en að tala almennt um hlutina.

Í skólamálum

Allt frá árinu 2004 hefur Þorkell Sigurlaugsson starfað hjá Háskólanum í Reykjavík. Á árunum 2004 til 2008 var hann framkvæmdastjóri þróunarsviðs skólans en frá árinu 2009 hefur hann verið framkvæmdastjóri fjármála- og þróunarsviðs. Hrun bankanna og krónunnar hafði mikil áhrif á Háskólann í Reykjavík, eins og fjallað hefur verið um á síðum Viðskiptablaðsins, og því má segja að Þorkell hafi staðið í ströngu við að stýra fjármálum skólans undanfarin misseri. Í því starfi hefur reynt á Þorkel, eins og alla stjórnendur háskólans.

Tengsl við gamla tíma

Strax eftir útskrift úr Háskóla Íslands byrjaði Þorkell að vinna hjá Eimskip. Þar starfaði hann fram til ársins 2004. Frá árinu 1986 og fram til ársins 2004 var Þorkell framkvæmdastjóri þróunarsviðs Eimskips og Burðaráss. En fyrstu árin var hann gjaldkeri, í hagdeild og áætlanadeild, innflutningsdeild og útflutningsdeild. Þá hafði hann á árunum 1980 til 1989 umsjón með sölu og kaupum á skipum fyrir fyrirtækið.

Þorkell hefur gegnt fjölda trúnaðarstarfa í atvinnulífinu á sínum ferli og setið í stjórnum stórra og smárra fyrirtækja. Á árunum 1996 til 2001 var hann í stjórn Össurar, hann var stjórnarformaður Marel hf. um tíma, og þá var hann einnig stjórnarformaður Framsýnar, útgáfufélagsins Viðskiptablaðsins og Fiskifrétta, um tíma.