Skartgripa- og úraverslunin Leonard tapaði tæpum 2,5 milljónum króna á síðasta ári. Þetta er öllu verri afkoma en árið á undan þegar tapið nam aðeins 50 þúsund krónum.

Fram kemur í uppgjöri verslunarinnar að hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir hafi numið tæpum 18,7 miljlónum króna í fyrra miðað við 21,6 milljónir árið á undan. Eignir félagsins námu 209 milljónum króna um síðustu áramót sem er rúmlega 13 milljónum meira en árið 2010. Stærstur hluti eigna var bundinn í vörubirgðum upp á 98,7 milljónir króna og viðskiptakröfum upp á 59,2 milljónir króna. Skuldir á móti eignum námu rúmri 201 milljón króna. Þar af eru langtímaskuldir gagnvart lánastofnunum upp á 83 milljónir króna.

Leonard rekur verslanir í Kringlunni, Smáralind, Flugstöð Leifs Eiríkssonar og í Lækjargötu.

Eignir færðar yfir á konuna

Eins og fram kom í umfjöllun vb í gær þá er eigandi Leonard félagið Ellur ehf. Það félag er í eigu Helgu Daníelsdóttur, eiginkonu Sævars Jónssonar, stofnanda Leonard. Hann var úrskurðaður gjaldþrota í febrúar árið 2010 og nema kröfur í þrotabú hans rúmum 230 milljónum króna. Engar eignir eru til upp í kröfur. Fyrir gjaldþrotið færði hann eignir sem á hann voru skráðar yfir á Helgu. Þar á meðal var 100% hlutur Sævars í Leonard sem hann átti í gegnum einkahlutafélagið ASJ ehf. Eftir því sem næst verður komist gera skiptastjórar þrotabúa sem tengjast Sævari athugasemdir við tilfærslur eignanna.

Leonard var úrskurðað gjaldþrota um svipað leyti og Sævar og var reksturinn færður yfir á aðra kennitölu.

Var í slæmri stöðu fyrir hrun

Félagið sem átti Leonard upphaflega heitir í dag 1899 ehf. Í ársreikningi félagsins fyrir uppgjörsárið 2008 birtist slæm staða þess. Leonard tapaði 349 milljónum króna þetta árið. Fram kemur að vörubirgðir, viðskiptakröfur og kröfur upp á tengd félög upp á tæpar 207 milljónir króna frá árinu 2007 höfðu verið afskrifaðar að fullu árið 2008 ásamt tæplega 30 milljóna króna viðskiptavild. Eignir Leonard fóru við þetta úr tæpum 350 milljónum króna niður í 157 milljónir.

Skuldir á móti eignum Leonard námu undir lok árs 2008 374 milljónum króna. Þar af voru myntkörfulán upp á rúmar 178 milljónir króna. Eigið fé Leonard var á sama tíma neikvætt um 217 milljónir. Félagið stóð frammi fyrir því að greiða rúma 231 milljón króna í afborganir lána árið eftir.

Kröfur í þrotabú Leonard, nú 1899 ehf., hljóðuðu upp á rúmar 300 milljónir króna. Engar eignir voru til í þrotabúinu upp í kröfur. Verslanir Leonard eru reknar í dag á kennitölu frá árinu 2009.