Skattar hafa hækkað umfram upphafleg áform ríkisstjórnarinnar, að mati Samtaka atvinnulífsins (SA). Í úttekt samtakanna, Skattstofnar atvinnulífsins - Ræktun eða rányrkja? , kemur fram að í áætlun ríkisstjórnarinnar og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um jöfnuð í ríkisfjármálum á árunum  2009 til 2013 hafi verið sett markmið um að ríkissjóður yrði rekinn með 50 milljarða króna afgangi árið 2013. Til að ná þessum árangri var talið að aðhaldsaðgerðir, lækkun gjalda og aukning tekna, þyrftu að nema 179 milljörðum króna á þessum fjórum árum. Þá er á það bent að samkvæmt stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, sem undirritaður var í júní árið 2009, var samið um að skattahækkanir næmu 45% af aðhaldsaðgerðum ríkissjóðs.

Í úttektinni kemur fram að reyndin sé allt önnur en stefnt var að. Skattar hafi hækkað meira og gjöld lækkað minna. Í samanburði við upphaflegt samkomulag um skiptingu aðhaldsaðgerða ríkissjóðs nema skattahækkanir 57% aðhaldsaðgerða og lækkun útgjalda 43%. SA benda m.a. á það í úttektinni, að miðað við það sem að var stefnt fyrir þremur árum séu hlutföllin nú öfug.

SA segir orðrétt á vef sínum:

„Samtök atvinnulífsins hafa gagnrýnt stjórnvöld fyrir að leggja of mikla áherslu á hækkun skatta í stað þess að hvetja til fjárfestinga með því að stuðla að stöðugleika í rekstrarumhverfi atvinnulífsins, afnema misfellur í skattkerfinu sem hindra fjárfestingu og nýsköpun og greiða götu erlendra fjárfestinga á Íslandi. Með því móti megi fjölga störfum og stækka skattstofna samtímis sem bótaþegum ríkissjóðs fækkaði.“

Samtök atvinnulífsins