Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra vill að ferðaþjónustan verði færð í efra virðisaukaskattþrepið strax um mitt næsta ár, hálfu ári áður en áætluð lækkun efra þrepsins á að taka gildi. Mun ráðherrann því leggja til að hækkun ferðaþjónustunnar milli skattþrepa taki gildi 1. júlí næstkomandi að því er RÚV greinir frá.

„Þessi hugmynd kom upp í vor en það hefur svosem ekki komið fram frumvarp ennþá en það eru áform um það já,“ sagði Benedikt í samtalinu spurður út í fjárlagafrumvarpið sem kynnt verður í dag. „Í fjárlagafrumvarpinu sem verður kynnt á morgun? Það verður fjallað um það þar, einmitt, en það er ekki hið eiginlega virðisaukaskattsfrumvarp, það kemur fram síðar í haust.“

Komugjöld myndu hækka innanlandsflug

Benedikt segir að ríkisstjórnin hafi þegar kannað hugmyndir sem komu upp í fjárlaganefnd um að taka frekar upp komugjöld og niðurstaðan liggi fyrir.

„Það bendir allt til þess að verði komugjöld tekin upp þá verði að hafa þau líka í innanlandsflugi sem myndi hækka verulega fargjöld í innanlandsflugi sem var kannski ekki það sem að var stefnt. En við erum búin að vera að skoða þetta eins og þingið setti okkur fyrir,“ segir Benedikt um aðrar mögulegar leiðir.

„Það er náttúrulega búið að tala um virðisaukaskattsbreytinguna sem ég held að sé mjög skynsamleg breyting vegna þess að þar erum við bæði að tala um jafnræði milli greina og við erum að tala um að ferðamenn borgi eðlileg gjöld til íslenska ríkisins.“