Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra segir að það gæti verið skynsamlegt að skoða skattkerfið og ívilnanir í því til fjölmiðla til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla. Sagði hann þetta í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í gærkvöldi, þar sem rætt var um fjölmiðlaumhverfið á Íslandi, sem nú eru miklar sviptingar á, á sama tíma og Ríkisútvarpið virðist hafa rétt úr kútnum, að hluta til með lóðasölu.

Á sama tíma og Fréttatíminn hefur farið í þrot, er Vodafone að eignast stærstan hluta fjölmiðlasamsteypu 365 og vandræði eru í Pressusamsteypunni, en nú hefur verið ákveðið að fækka útgáfudögum DV úr tveimur í einn að því er Kjarninn hefur einnig greint frá.

Til þess að bæta rekstrarumhverfið segir Kristján að til greina komi að „Skoða skattkerfið og ívilnanir þar til prentmiðla, til vefmiðla þess vegna, og svo framvegis,“ eins og ráðherrann orðaði það í  gærkvöldi. „Við erum í uppsveiflu og þetta ætti að geta gengið þokkalega vel. Ég hef verulegar áhyggjur af því að þegar niðursveiflan kemur þá þrengi enn meira að þessu starfi.