Tekjur sveitarfélaga vegna fasteignaskatta hafa hækkað um 27% á síðustu fimm árum, reiknað á verðlagi þessa árs. Tekjur vegna álagningar fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði hafa hækkað um 23% á þessu tímabili og tekjur af íbúðarhúsnæði um 29%. Ein helsta ástæða þessara auknu skatttekna sveitarfélaga er hækkun fasteignamats undanfarin ár.

Samkvæmt framlögðum frumvörpum að fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir 2019 kemur í ljós að af tólf stærstu sveitarfélögum landsins hafa fjögur ákveðið að leggja til lækkun á fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði og íbúðarhúsnæði. Eru það Kópavogsbær, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Akranes. Í þremur sveitarfélögum, Reykjanesbæ, Árborg og Vestmannaeyjum, er eingöngu stefnt að því lækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði.

Í Garðabæ á að skoða hvort svigrúm sé til lækkunar og mun það væntanlega skýrast á bæjarstjórnarfundi 6. desember. Taka ber fram að á Akureyri hefur fjárhagsáætlun enn ekki verið lögð fram.

Hæstu skattarnir

Samkvæmt fjárhagsáætlunum Seltjarnarness, Fjarðabyggðar og Reykjavíkur er ekki gert ráð fyrir neinni breytingu á fasteignasköttum. Í Reykjavík var tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að lækka álagningarprósentuna úr 1,65 í 1,60 felld af meirihlutanum um miðjan síðasta mánuð. Af stóru sveitarfélögunum hefur Reykjavík langmestu tekjurnar af fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði. Í fyrra námu þær 11,9 milljörðum króna, sem jafngildir 94 þúsund krónum á hvern íbúa. Til samanburðar voru tekjurnar næsthæstar í Hafnarfirði eða 56 þúsund á íbúa.

Félag atvinnurekenda og fleiri í atvinnulífinu hafa kallað eftir endurskoðun þessa skattstofns til lækkunar og þá sérstaklega álagningarprósentu á atvinnuhúsnæði. Að mati félagsins eiga fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði að standa undir kostnaði við veitta þjónustu hvers sveitarfélags. Hefur félagið gagnrýnt að svo sé ekki raunin, því hærri sköttum hafi ekki fylgt aukin þjónusta heldur séu skattarnir í raun eignaskattar, sem standist ekki lög.

Hækkun fasteignamats á atvinnuhúsnæði á milli áranna 2018 og 2019 er 15% á landinu öllu, en 17,2% á höfuðborgarsvæðinu, þar sem mikill meirihluti fyrirtækja starfar. Félag atvinnurekenda skrifaði í haust sveitarfélögum, þar sem aðildarfyrirtæki félagsins starfa, bréf þar sem þau voru hvött til að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda til að mæta þessum fyrirséðu hækkunum og „gífurlegum hækkunum undanfarinna ára“.

Sveitarfélögin „axli ábyrgð“

Ólafur Stephensen , framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segist fagna því að málflutningur félagsins hafi náð í gegn hjá ýmsum af stærri sveitarfélögunum.

„Við höfum lagt áherslu á að sveitarfélögin axli ábyrgð á því með ríkisvaldinu að skapa fyrirtækjum hagstæðara skattaumhverfi, meðal annars til að greiða fyrir farsælli lendingu í kjarasamningum í vetur,“ segir Ólafur. „Þá er í raun allsendis óforsvaranlegt að sveitarfélögin haldi áfram að hirða í sveitarsjóðina gífurlegar hækkanir á skattbyrði fyrirtækja vegna hækkana fasteignamats, sem oftast eiga sér enga samsvörun í afkomu eða greiðslugetu fyrirtækjanna. Að sama skapi eru það mikil vonbrigði að sum sveitarfélög sjái ástæðu til að sýna eigendum íbúðarhúsnæðis sanngirni vegna hækkana fasteignamats, en ekki eigendum atvinnuhúsnæðis.“

Að sögn Ólafs stendur upp úr að Reykjavíkurborg sé eina stóra sveitarfélagið á höfuðborgarsvæðinu sem sé harðákveðið í að halda fasteignaskatti á atvinnuhúsnæði áfram í lögbundnum toppi.

„Fimm ára áætlun Reykjavíkurborgar gerir ráð fyrir að á næstu fimm árum hækki fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði um 7,5 milljarða króna, verði 19,5 milljarðar árið 2023 í samanburði við 12 milljarða í ár,“ segir hann. „Þetta samsvarar 57,7% hækkun. Til samanburðar má geta þess að árið 2013 voru tekjur borgarinnar af fasteignagjöldum á atvinnuhúsnæði 7,6 milljarðar. Á tíu árum þrefaldist því skattbyrði fyrirtækjanna í borginni vegna atvinnuhúsnæðis.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .