Fasteignamat ríkisins mun hækka skattbyrði fyrirtækja um 1,3 milljarða króna á næsta ári, samkvæmt nýrri frétt á vef Samtaka atvinnulífsins.

Þjóðskrá Íslands birti nýlega nýtt fasteignamat sem taka á gildi í janúar 2016. Hækkun mats á atvinnuhúsnæði nemur 2,4% samkvæmt því. Í umfjöllun Samtaka atvinnulífsins segir að á síðasta ári hafi fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkað um 12,4% en ennþá meira á stórum hluta verslunar- og skrifstofuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu, eða um 18%.

Segja Samtök atvinnulífsins að fasteignagjöld hefðu hækkað um sambærilegt hlutfall, eða alls um 1.300 milljónir króna á landinu öllu, en vegna þess að ákveðið var að hækkun síðasta árs taki gildi í áföngum muni fasteignaeigendur ekki finna að fullu fyrir hækkuninni fyrr en með álagningu gjaldanna á árinu 2016.

Dæmi um 100% hækkun

Benda samtökin fasteignaeigendum á að kynna sér breytingar á mati eigna sinna og nýta sér heimildir til að gera athugasemdir vegna þess fyrir 1. september næstkomandi. Fjölmörg dæmi séu um fasteignir þar sem matið hækkaði um og yfir 100% milli ára, og fyrir stór fasteignafyrirtæki geti hækkun fasteignagjalda í kjölfarið numið tugum milljóna króna á ári.

„Samtök atvinnulífsins telja að ríkisstofnun geti ekki ein og sér tekið ákvörðun um að breyta áratugalangri framkvæmd sem hækkar um leið skattbyrði atvinnulífsins um milljarða króna án þess að mælt sé fyrir um slíkt í lögum. Samtökin telja jafnframt mikilvægt að skorið verði úr um lögmæti breytinganna í dómsmáli sem hefði þá fordæmisgildi fyrir allt atvinnulífið. SA hafa aflað gagna sem nýst geta í slíku máli,“ segir í tilkynningu samtakanna.