Stjórnvöld í Hvíta Rússlandi handtóku um 400 manns á Frelsisdeginum svokallaða á laugardaginn, þegar stjórnarandstæðingar í landinu mótmæltu sérstökum skatti á atvinnulausa í landinu, að því er fram kemur í frétt BBC .

Enn fleiri voru síðan handtekin í gær, sunnudag, en mótmælin koma í kjölfar nokkurra mótmæla sem hafa blossað upp vegna skatts, að andvirði 25 þúsund króna sem settur verður á þá sem hafa verið atvinnulausir í meira en sex mánuði.

Sagður síðasti einræðisherra Evrópu

Forseti landsins, Alexander Lukashenko, sem margir hafa lýst sem síðasta einræðisherra Evrópu, segir að skatturinn muni aga þá sem ekki nenni að vinna.

Stjórnvöld hafa alla jafna ekki umborið mótmæli í landinu, en sérstaklega virðist allar táknmyndir frá því fyrir valdatöku Lukashenko vera þyrnir í augum stjórnvalda.

Stjórnvöld hafna gömlum hátíðisdögum

Stjórnarandstæðingar hafa reglulega haldið upp á Frelsisdaginn en hann er haldinn í tilefni þess að 25. mars árið 1918 varð fyrsta hvítrússneska ríkið sjálfstætt, þó það hafi verið skammlíft.

Einnig hafa stjórnvöld staðið gegn því að haldið sé upp á það 27. júlí þegar núverandi ríki landsins lýsti yfir sjálfstæði árið 1990.

Mótmælendur með gamla fánann stöðvaðir

Þess í dag heldur ríkið upp á 3. júlí, sem er dagurinn þegar sovéskar hersveitir tóku höfuðborgina Minks úr höndum þýska hersins í Seinni heimsstyrjöldinni.

Einnig eru öll tilvik þegar gamli hvítrauði fáni ríkisins er flaggað stöðvuð af lögreglu, sem sökuð er um harðræði í aðgerðum sínum gegn stjórnarandstæðingum í landinu.

Höfðu stjórnvöld þegar í aðdraganda árlegu mótmælanna um helgina handtekið um 100 manns, þar á meðal einn helsta leiðtoga stjórnarandstæðinga, Mikalay Statkevich, sem ekkert hefur heyrst í síðan 24. mars.

Heimasíða stjórnarandstæðinga segja öryggissveitir landsins neita því að vita hvar hann sé niður kominn, en þess hafði verið vænst að hann myndi leiða mótmæli laugardagsins.