*

laugardagur, 20. október 2018
Innlent 23. desember 2017 10:36

Skattleysismörk hækka í 152 þúsund

Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka um 1,9% um áramótin, en um er að ræða lögbundna hækkun miðaða við vísitölu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Á grundvelli tekjuskattslaganna frá árinu 2003 mun persónuafsláttur hækka um 1,9% um áramótin, en miðað er við hækkun á vísitölu neysluverðs síðustu tólf mánuði þar á undan.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 646.739 kr. fyrir árið 2018, eða 53.895 á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um 11.859 kr. milli áranna 2017 og 2018, eða um 988 kr. á mánuði að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 151.978 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð, samanborið við 149.192 kr. á mánuði árið 2017. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 1,9%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Hann byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 249.514 kr. á mánuði árið 2018, samanborið við 244.940 kr. á mánuði árið 2017.

Jafnframt munu þrepamörk hækka, en hún miðast við hækkun launavísitölu síðustu 12 mánuði. Þrepamörk tekjuskatts verða samkvæmt því við 10.724.553 kr. árstekjur (893.713 kr. á mánuði) fyrir árið 2018.