Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup fjárfestingarfélagsins Draupnis, aðaleiganda Senu, á 89,2% hlut í félaginu CP Reykjavík en félagið starfar við ráðstefnuhald, umsjón með viðburðum og skipulagningu hvataferða. Um er að ræða samsteypusamruna þar sem Draupnir kaupir meirihluta hlutafjár í CP Reykjavík.

„Að undangenginni rannsókn og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins að samruninn hindri ekki virka samkeppni á mörkuðum málsins og leiði ekki til myndunar eða styrkingar á markaðsráðandi stöðu. Þá leiðir samruninn ekki til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti. Því eru ekki forsendur til að aðhafast vegna samrunans," segir í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins.