Hagstofa Íslands vanreiknaði vísitölu neysluverðs í hálft ár. Því hafa verðtryggðar fjárskuldbindingar verið gerðar rangt upp á því tímabili.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Greiningardeild Íslandsbanka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að þeir sem hafa tekið vertryggt húsnæðislán hafa notið þess undanfarið hálft ár að höfuðstóll lánanna hafi hækkað minna en hann hefði átt að gera, „þó að þetta sé enginn stórkostlegur munur sé hann þó til staðar,“ segir Jón Bjarki. „Þessi ábati, og að sama skapi tap þeirra sem lána, gengur til baka núna í næsta mánuði. Fyrsta nóvember tekur þessa nýja mæling gildi og er kominn inn í útreikning á verðtryggðum lánum. Þá er staðan sú að það sé eins og þessi mistök hefðu aldrei verið gerð. Þetta er í raun búið að vera í gangi í hálft ár núna, þessi vanútreikningur“ segir Jón Bjarki.

Hann tekur einnig fram að þetta sé einungis tímabundinn ábati, en fyrir þá einstaklinga sem hafa til að mynda borgað upp lán á tímabilinu þá sé hann varanlegur. Þó fari ekki fram endurútreikningur á lánum segir Jón Bjarki.

„Fyrir utan að þetta skekkir útreikninga á lánum og öðrum verðtryggðum skuldbindingum þá gefur þetta ranga mynd af efnahagsmálunum og sér í lagi verðbólguþróuninni,“ bætir Jón Bjarki við. „Skekkjan hefur verið viðvarandi í hálft ár og þá verður verðbólga meiri en menn héldu. Það hefur bjagað sýn stjórnvalda og aðila á fjármálamarkaði á efnahagsþróunina. Það er alvarlegur hlutur“ segir hann að lokum.