Skelfiskmarkaðurinn ehf., sem var rekstrarfélag samnefnds veitingastaðar sem Hrefna Rósa Sætran opnaði við Hjartagarðinn í miðbæ Reykjavíkur, hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta, nú réttum mánuði eftir að staðnum var lokað.

Hafa kröfuhafar tíma til 8. júlí næstkomandi til að lýsa kröfum í búið, og verður skiptafundur haldinn þá með þeim á skrifstofu skiptastjórans, Guðrúnar Bergsteinsdóttur lögmanns, að Kringlunni 7, 8. hæð, 103 Reykjavík.

Viðskiptablaðið sagði frá því í mars fyrir ári síðan þegar veitingastaðurinn var opnaður, en honum var lokað innan við ári seinna . Í nóvember á síðasta ári hallaði undan fæti í rekstri félagsins eftir að fjöldi gesta staðarins veiktust af nóróveiru í kjölfar þess að borða skelfisk á staðnum.

Sagði Hrefna Rósa þá að hún og samstarfsfólk hennar hefðu reynt að halda staðnum gangandi en það hafi ekki gengið því salan hafi minnkað um meira en helming í kjölfar atviksins.

„Eftir þriggja ára undirbúning opnuðum við staðinn á erfiðum tíma og ég held það hafi ekki farið fram hjá neinum undanfarið að það er ekki auðvelt að reka veitingastað í dag og hvað þá þegar atvik sem þetta kemur upp," var þá meðal annars haft eftir Hrefnu sem rekur tvo aðra vinsæla veitingastaði.

„En þá er gáfulegt að einbeita sér að því sem gengur vel og það ætla ég einmitt að gera og setja alla mína starfsorku í að leyfa Fiskmarkaðnum og Grillmarkaðnum að halda áfram að blómstra.“