*

sunnudagur, 20. janúar 2019
Innlent 25. janúar 2018 16:46

Skeljungur og Hagar hækkuðu mest

Aðeins þrjú félög lækkuðu á mörkuðum en önnur ýmist hækkuðu eða stóðu í stað.

Ritstjórn
Finnur Árnason er forstjóri Haga.
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland hækkaði um 0,31% í dag og stóð í 1.774,02 við lok dags en viðskipti á hlutabréfamarkaði námu tæplega 2,7 milljörðum króna. Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,02% og stendur því í 1.359,82 stigum, en viðskipti með skuldabréf námu tæplega 4,6 milljörðum króna.

Skeljungur hækkaði mest eða um 2,37% í 214 milljón króna viðskiptum en bréf félagsins stóðu í 7,35 krónum við lokun markaða. Næst mest hækkuðu bréf Haga eða um 2,08% í 243 milljón króna viðskiptum. Bréf félagsins standa því í 41,65 krónum.

Aðeins þrjú félög lækkuðu á mörkuðum í dag. Bréf Eikar lækkuðu mest eða um 0,37% í 322 milljón króna viðskiptum og stóðu í 10,65 krónum við lokun markaða. Þá lækkuðu bréf HB Granda og Marel um 0,14%. Viðskipti með bréf Marel námu 351 milljón króna og stóðu í 350,00 krónum við lok dags en viðskipti með bréf HB Granda nám 236 milljónum króna. Bréf útgerðarinnar enduðu því í 36,55 krónum.