Á árunum 2018 til 2019 hyggst Skeljungur opna þrjár vetnisstöðvar fyrir bifreiðaeigendur en það er þáttur í áætlunum fyrirtækisins um uppbyggingu fjölorkustöðva.

Er það gert í samvinnu við norska fyrirtækið Nel ASA í gegnum Íslenska vetnisfélagið ehf. sem verður í eigu félaganna tveggja.

Styrkur frá ESB

Um 70% af heildarkostnaði verkefnisins, eða um 2,7 milljónir evra, koma frá Evrópusambandinu sem styrkur, en hann er hluti af evrópsku samstarfsverkefni, Europan Fual Cells and Hydrogen Join Untertaking.

Þess utan hefur Skeljungur fengið 20 milljóna króna styrk frá Orkusjóði til uppbyggingar fjögurra hraðhleðslustöðva fyrir rafbíla en sú fjárhæð nemur um helming af kostnaði við byggingu þeirra, og verða þær opnaðar á þessu ári og því næsta.

Þekktir bílaframleiðendur koma að verkefninu

Með uppbyggingu vetnisstöðvanna tekur Skeljungur skref í uppbygginu innviða fyrir notkun vetnisbifreiða að því er segir í fréttatilkynningu frá félaginu.

„[E]nda er drægni vetnisbifreiða töluvert meira en hreinna rafbíla auk þess sem áfyllingartími er til muna skemmri. Tilvist þriggja vetnisstöðva mun jafnframt auðvelda markaðssetningu vetnisbifreiða á Íslandi og munu stórir bifreiðaframleiðendur koma að verkefninu," segir í tilkynningunni.

„Bifreiðaframleiðendur sem hafa verið viðriðnir H2ME verkefnin eru t.d. Toyota, Daimler (Benz), Audi, BMW, Honda, Nissan og Renault.

Hafa sett upp 30 vetnisstöðvar í Evrópu

Vetnisverkefnið er samstarfsverkefni með norska fyrirtækinu Nel ASA í gegnum Íslenska vetnisfélagið ehf. Það félag mun verða 90% í eigu Skeljungs og 10% í eigu Nel ASA, sem er jafnframt framleiðandi stöðvanna í verkefninu.

Nel hefur mikla reynslu og þekkingu á sviði vetnismála og hefur tekið þátt í sambærilegum samstarfsverkefnum í Danmörku og Noregi. Hefur félagið til að mynda reynslu af uppsetningu yfir 30 vetnisstöðva vítt og breitt um Evrópu."