Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs – og landbúnaðarráðherra, hafði í höndunum afdráttarlausa viðvörun sérfræðinga sinna innan ráðuneytisins þegar reglugerð um veiðistjórnun á makríl var í bígerð árið 2010.

Fréttablaðið greindi frá þessu fyrst fréttamiðla en blaðið fékk aðgang að undirbúningsgögnum ráðuneytisins fyrir setningu reglugerðarinnar í krafti upplýsingalaga. Þar kemur fram að sérfræðingar auðlindaskrifstofu ráðuneytisins greindu ráðherra frá því að reglugerðin stæðist ekki ákvæði úthafsveiðilaga.

Í vikunni var greint frá niðurstöðu Hæstaréttar um að íslenska ríkið beri skaðabótaábyrgð vegna fjártjóns sem Ísfélag Vestmannaeyja hf. og Huginn hf. kunni að hafa orðið fyrir vegna úthlutunar makrílkvóta á árunum 2011 til 2014.

Nú er talið sannað að útgerðir landsins eigi tugmilljarða kröfu á ríkissjóð. Eins er ljóst að óhjákvæmilegt er frá hendi stjórnvalda að breyta skipulagi makrílveiða – en nú liggja starfsmenn ráðuneytisins yfir forsendum dómsins með ríkislögmanni til að ákvarða næstu skref.

Hæstiréttur segir að með ákvörðunum Fiskistofu, sem teknar voru á grundvelli reglugerða, hafi bátum fyrirtækjanna verið „úthlutað minni aflaheimildum en skylt var“ samkvæmt lögum um fiskveiðar utan lögsögu Íslands.