Arnar Atlason framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Tor ehf. í Hafnarfirði segir reglugerðarbreytingu Sjávarútvegsráðherra sem heimilar útgerðum að hliðra 30% aflaheimilda milli ára hafa slæm áhrif á rekstrarskilyrði sjálfstæðra fiskvinnslufyrirtækja.

Jafnframt segir hann breytinguna í raun svipta sjómenn og fiskverkafólk verkfallsvopninu.

Borguðu meira í verkfallinu

„Hráefnisverðið var gríðarlega hátt meðan á verkfalli stóð, og þá voru menn að vonast til þess að aukið framboð í kjölfar verkfalls myndi leiða til þess að verðið yrði lágt, og þar með gætu menn rétt úr kútnum, en nú er það tekið af með þessu,“ segir Arnar.

„Í okkar tilfelli og margra annarra, þá gerðu menn ráð fyrir að stjórnvöld færu að þessu með eðlilegum hætti sem hefði þýtt lægra verð núna vegna aukins framboðs, svo hægt væri að jafna út meðalverð yfir árið.

Meðan á verkfallinu stóð vorum við að borga meira fyrir hráefnið til þess að standa við okkar skuldbindingar.

Það sem alvarlegast er í þessu er að það er alltaf verið að tala um frjálsa samkeppni á markaði til að hámarka notkun auðlindarinnar, en með einu pennastriki er með þessu verið að kippa markaðslögmálunum úr sambandi.“

Kippir framboði af markaði

Arnar segir að með þeirri breytingu að útgerðarfyrirtæki geti nú frestað nýtingu allt að 30% kvótans sé verið að kippa miklu framboði af fiskmörkuðum, sem sjálfstæði fiskvinnslufyrirtæki treysti á.

„Öll fyrirtækin í sjávarútvegi eiga að starfa á samkeppnismarkaði sem lúti eðlilegum lögmálum, það er af framboði og eftispurn,“ segir Arnar.

„Þarna er verið að hliðra til framboði með beinum hátti, sem segir sig sjálft að hafi gríðarleg áhrif á þessa aðila sem ekki eru með útgerð samhliða vinnslu, enda eru þeir gríðarlega háðir framboði og eftirspurn.“

Skerðir verkfallsrétt

Arnar vill meina að með þessu sé verið að skerða verkfallsrétt sjómanna og fiskvinnslu og skilur hann ekki afhverju viðsemjendur hafi ekki hugað að þessu atriði.

„Þegar verkfall gengur í garð, þá eru menn beggja vegna undir ákveðnum þrýstingi að leysa verkfalið,“ segir Arnar. „Launþegar eru undir þeim þrýstingi að þeir þurfa að fá greitt úr verkfallssjóði í ákveðinn tíma og svo eiga þeir bara hættu á að verða launalausir. Það er verið að skerða verkfallsrétt þeirra með þessu.“

Á sama tíma ætti útgerðin að vera undir þeim þrýstingi að verða af afkomu, en nú er sú pressa bara skorin af þeim. Þeir verða ekki af neinum verðmætum, þeir bara fresta veiðunum svo verðmætið verður það sama.“