*

miðvikudagur, 23. janúar 2019
Innlent 26. júní 2013 09:54

Skila tillögum um lagningu sæstrengs

Ráðgjafarhópur sem skoðaði hagkvæmni sæstrengs héðan til Evrópu skilar niðurstöðum sínum í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ráðgjafarhópur sem Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra setti á laggirnar í fyrrasumar til að kanna möguleika á lagningu sæstrengs héðan til Evrópu skilar tillögum sínum í hádeginu í dag. Það er Ragnheiður Elín Árnadóttir, eftirmaður Katrínar, sem tekur við tillögunum. 

Fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, að lagning sæstrengs sem flytja á raforku héðan og út hafi um nokkurt skeið verið talin tæknilega möguleg og séu vísbendingar um að hún geti skilað nægjanlegri hagkvæmni. Hópnum var m.a. ætlað að greina nánar þjóðhagslega hagkvæmni verkefnisins, tæknileg og umhverfisleg atriði ásamt lagaumhverfi og milliríkjasamninga.

Í ráðgjafarhópnum sátu einstaklingar frá öllum þingflokkum, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands, BSRB, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Neytendasamtakanna, Landssamtökum lífeyrissjóða, Landsneti, Landsvirkjun, Samorku og Náttúruverndarsamtökum Íslands. Formaður nefndarinnar er Gunnar Tryggvason.

Svona var hópurinn skipaður á sínum tíma:

 • Gunnar Tryggvason, formaður, skipaður af iðnaðarráðherra, 
 • Vilhjálmur Þorsteinsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar, 
 • Álfheiður Ingadóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs,
 • Ólöf Nordal, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins, 
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins, 
 • Baldvin Björgvinsson, tilnefndur af þingflokki Hreyfingarinnar, 
 • Nils Gústavsson, tilnefndur af Landsneti, 
 • Ragna Árnadóttir, tilnefnd af Landsvirkjun, 
 • Pétur Reimarsson, tilnefndur af Samtökum atvinnulífsins, 
 • Þuríður Einarsdóttir, tilnefnd af BSRB, 
 • Arnbjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, 
 • Ásdís Kristinsdóttir, tilnefnd af Samorku, 
 • Signý Jóhannesdóttir, tilnefnd af ASÍ, 
 • Valdimar K. Jónsson, tilnefndur af Neytendasamtökunum,
 • Árni Finnsson, tilnefndur af Náttúruverndarsamtökum Íslands.