Danska fasteignafélagið Victoria Properties hefur aldeilis tekið kipp á dönskum hlutabréfamarkaði fyrstu daga ársins 2017 og hefur gengi bréfa félagsins hækkað um allt að 930 prósentustigum. Það er þó hængur á: Stjórnendur fyrirtækisins gera sér ekki grein fyrir af hverju þessar miklu hækkanir stafa. Frá þessu greinir Bloomberg fréttaveitan .

Victoria Properties A/S, sérhæfir sig í fasteignafjárfestingum í Þýskalandi. Fyrirtækið þurfti að minna markaðsaðila á það að eigið fé fyrirtækisins væri ekkert. Þetta gerðu stjórnendur fyrirtækisins í tilkynningu til markaðarins.

Þar kemur fram að það væru engar sértækar breytingar á efnahagsreikningi Victoria Properties og að framtíðaráform fyrirtækisins væru að mestu óbreytt. Þetta skrifar Rasmus Bundgaard, forstjóri Victoria til kauphallarinnar í Danmörku. „Eigið fé fyrirtækisins er nálega núll danskar krónur,“ tekur hann enn fremur fram.

Áður en þessar miklu hækkanir fóru af stað árið 2017, þá hafði gengi hlutabréfa Victoria Properties lækkað sex ár í röð. Nú er spurning um hvort að danskir fjárfestar endurhugsi kaupstefnu sína í Victoria Properties.