Skilmálabreytingar skuldabréfaútgáfu WOW air eru töluvert betri heldur en haldið hefur verið fram að því er fram kemur í Morgunblaðinu í morgun en blaðið vitnar í heimildarmenn. Í fréttinni kemur fram að ekki verði farið fram á lækkun höfuðstóls bréfanna og að vaxtakjör skuldabréfaflokksins verði óbreytt eða 9% að viðbættum EURIBOR, evrópskum millibankavöxtum.

Samkvæmt Morgunblaðinu eru skuldabréfaeigendurnir nú komnir með fjárhagslega sterkari mótaðila í viðskiptunum sem gerir stöðuna mun betri en á móti kemur að þeir þurfa að aflétta þeim veðum sem þeir áttu í flugfélaginu. Þar að auki er sú hagnaðarvon sem tengdist mögulegri skráningu félagsins á markað ekki lengur fyrir hendi.