Skeljungur rekur 65 bensínstöðvar um allt land undir merkjum Shell, Orkunnar og Orkunnar X. Nú verður breyting á því verið er að taka niður Shell-skiltin á bensínstöðvum félagsins.

„Við erum alls ekki að slíta samstarfinu heldur erum við að breyta því," segir Valgeir M. Baldursson, forstjóri Skeljungs. „Við höfum átt í áratugalöngu samstarfi við Shell og stóru stöðvarnar okkar hafa verið reknar undir merkjum hollenska fyrirtækisins. Nú verður ákveðin breyting á þessu samstarfi því við erum þessa dagana að taka Shell-skiltin niður og stöðvarnar verða reknar undir merkjum Skeljungs, sem við teljum mjög þekkt og sterkt vörumerki.

Þessa ákvörðun má rekja til stefnumótunarvinnu, sem við fórum í síðasta haust. Við viljum hafa tækifæri til að geta aukið sveigjanleikann meira heldur en við höfum getað gert starfandi undir merkjum Shell. Það má segja að í kjölfarið á þessum breytingum þá höfum við meira vald til að ákveða hvernig við framkvæmum hlutina og við munum geta brugðist hraðar við ýmsum breytingum á markaðnum en við höfum getað gert. Fram að þessu hefur til dæmis gerð markaðsefnis, útlit stöðva og vöruúrval verið bundið samstarfssamningi við Shell, sem leggur áherslu á að allt sé samkvæmt þeirra stöðlum. Þrátt fyrir þessa breytingu verðum við áfram í sterku viðskiptasambandi við Shell."

Þessi breyting þýðir að nú eru öll stóru íslensku olíufélögin búin að "skera" að ákveðnu leyti á tengslin við erlend olíufélög. N1 var rekið undir merkjum alþjóðlega olíufélagsins Esso, Olís undir merkjum BP og Skeljungur undir merkjum Shell. Þess má geta að um árabil hafa öll íslensku félögin keypt eldsneyti af norska olíurisanum Statoil. Aftur á móti hafa félögin boðið upp á ýmsan smásöluvarning frá hinum erlendu félögunum þremur.

Tap í fyrra

Skeljungur birti nýverið á heimasíðu sinni ársreikning fyrir árið 2015. Samkvæmt honum kemur fram að hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.675 milljónum króna, rekstrarhagnaður nam 832 milljónum en var 1.957 milljónir árið 2014. Afkoma ársins var neikvæð um 119 milljónir samanborið við 533 milljóna króna hagnað árið 2014. Eignir Skeljungs námu 18,4 milljörðum um síðustu áramót, skuldir námu 10,9 milljörðum og eigið fé 7,5.

"Grunnreksturinn hefur verið nokkuð stöðugur," segir Valgeir. "Í kjölfar umræðunnar um frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins og þeirra vangaveltna sem þar voru reifaðar þá ákváðum við að færa niður virði birgðastöðunnar um einn milljarð. Þessi niðurfærsla er eina skýringin á þessari afkomu félagsins í fyrra og hefur ekki áhrif á sjóðstreymi félagsins því þetta er niðurfærsla á efnahagsliðum."

Á leið í Kauphöllina

Valgeir segir að unnið sé að undirbúningi skráningar Skeljungs í Kauphöllina.  "Við erum að byrja núna áreiðanleikakannanir á fyrirtækinu og stefnum að því að fyrirtækið verði skráð á markað áður en árið er á enda." Þess má geta að í Kauphöllinni er nú þegar eitt olíufélag, N1.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð