Höfundur Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins fjallar um hugsanlega stjórnarmyndun eftir næstu kosningar í blaðinu í dag og segir meðal annars að þar sem ríkissjóður sé fleytifullur séu ákjósanleg skilyrði til að „koma á 4-5 flokka stjórn, eins og verið er að hóta, til þess að sukka og sulla með fé.“

Minnist hann á að talskonur Samfylkingar, Pírata og Vinstri grænna hafi tilkynnt að þær hafni fyrirfram og með öllu að eiga samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. „Flokkinn, sem er að færa þeim sjálfa kosningaflýtinguna. Engin sérstök skýring hefur verið gefin á þessari óvæntu útilokun og stjórnmálalega einelti, svo tískuorð úr dægurumræðu sé notað.“

Hann heldur áfram að segir það mega merkilegt heita ef formanni Samfylkingar, sem hrapaði niður í hrakfylgi eftir framgöngu í síðustu ríkisstjórn, finnist ekkert hlægilegt við að hún tilkynni þjóðinni hverjir megi sitja í ríkisstjórn næst.

Síðustu málsgreinar Reykjavíkurbréfsins hljóða svo:

Núverandi ríkisstjórn hefur staðið vel við þau loforð sín, sem hún nefndi þó aldrei upphátt, að breyta helst engu verki ríkisstjórnar Steingríms og Jóhönnu. Öll voru þau rökstudd með orðunum „það varð hér hrun.“ Steingrímur hækkaði skatta 100 sinnum eins og frægt er. Þessar skatthækkanir standa enn eins og þær hafi verið felldar inn í stjórnarskrá. Menn lögðu jafnvel lykkju á leið sína þegar millistig tekjuskatta var lækkað lítillega, með því að hækka háþrepið og síkka í því þannig að hægt væri að flækja fleiri einstaklinga í netið.

Ríkissjóður er fleytifullur. Það eru ákjósanleg skilyrði til þess að koma á 4-5 flokka stjórn, eins og verið er að hóta, til þess að sukka og sulla með fé.

Gleðskapurinn getur orðið jafnherlegur og brúðkaup Villa kokks og Dómhildar.

Og timburmennirnir ekki síðri.

Hvers vegna menn vilja menn endilega flýta sér yfir í þetta ástand? Það væri nytsamlegt að upplýsa þjóðina um það.

Er það til of mikils mælst?